Fótbolti

Trump hótar að taka HM-leiki af Boston

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt forseta FIFA, Gianni Infantino. Þeim er vel til vina.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt forseta FIFA, Gianni Infantino. Þeim er vel til vina. epa/CJ GUNTHER

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað að færa leiki á HM 2026 í fótbolta sem eiga að fara fram í Boston.

Áætlað er að sjö leikir á HM á næsta ári fari fram á Gillette-leikvanginum í Massachusetts, heimavelli New England Patriots í NFL-deildinni.

Michelle Wu hefur verið borgarstjóri í Boston síðan 2021 en hún er Demókrati. Trump sagði að hún væri klár en róttæk vinstrikona.

„Við gætum tekið leikina af þeim. Ég elska fólkið í Boston og veit að það er uppselt á leikina. En borgarstjórinn ykkar er ekki góður,“ sagði Trump.

Hann hefur áður hótað að taka leiki á HM af borgum þar sem Demókratar ráða ríkjum og hann telur ótryggar.

Í kjölfar hótana Trumps steig FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, fram og sagði að hann hefði enga heimild til að færa leiki á HM. Það væri alfarið í höndum FIFA.

Trump gaf sig ekki og sagði að hann myndi einfaldlega heyra í góðvini sínum, Gianni Infantino, forseta FIFA, og hann myndi færa leikina úr ótryggum borgum.

„Ef einhver er að vinna slæmt starf og ég tel að öryggi sé ógnað myndi ég hringja í Gianni, hinn frábæra forseta FIFA, og segja við hann: Færum leikina og þeir myndu gera það,“ sagði Trump og bætti við að Infantino yrði kannski ekki í skýjunum með að þurfa að breyta um leikstaði en hann myndi gera það.

Fyrr í þessum mánuði meiddust fjórir lögreglumenn í tengslum við mótmæli stuðningsmanna Palestínu í Boston Common-almenningsgarðinum.

Heimsmeistaramótið næsta sumar fer fram í Kanada, Bandaríkjunum og Mexíkó. Leikið verður í ellefu borgum í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×