Innlent

Einum veittir stunguáverkar og annar varð fyrir hópárás

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Ráðist var á mann með hníf og honum veittir stunguáverkar í póstnúmerinu 104 í gærkvöldi eða nótt. Maðurinn var ekki alvarlega slasaður en fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar.

Gerandinn lét sig hverfa en var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar. Þar segir að 67 hafi verið skráð og fjórir gist fangageymslur í morgunsárið.

Önnur líkamsárás átti sér stað í miðborginni, þar sem hópur manna réðst á einn með höggum og spörkum. Hlupu þeir síðan á brott. Árásarþoli var aumur en ekki mikið slasaður, að því er segir í yfirlit lögreglu.

Þá var einn handtekinn vegna hótana en hann verður yfirheyrður þegar rennur af honum.

Einn var handtekinn í miðborginni vegna húsbrots og eignaspjalla og þá var annar handtekinn í kjölfar umferðaróhapps í Kópavogi. Um var að ræða ökumann sem var undir áhrifum og rést á vegfaranda sem reyndi að varna því að hann léti sig hverfa af vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×