Erlent

Var að streyma á TikTok þegar hann féll til jarðar og lést

Jón Þór Stefánsson skrifar
Balin Miller þótti hafa unnið mögnuð afrek undanfarna mánuði.
Balin Miller þótti hafa unnið mögnuð afrek undanfarna mánuði.

Balin Miller, bandarískur áhrifavaldur sem sérhæfði sig í klifri, er látinn einungis 23 ára að aldri eftir fall úr El Capitan, frægu bjargi í Kaliforníu sem færir klifrarar spreyta sig gjarnan á. Hann var að streyma frá klifrinu á samfélagsmiðlinum Tik Tok þegar hann féll til jarðar.

Atvikið átti sér stað á miðvikudag.

„Hjartað mitt er mölvað í milljón búta. Ég veit ekki hvernig ég mun komast í gegnum þetta. Ég elskaði hann svo heitt. Ég vil vakna upp frá þessari hræðilegu martröð,“ skrifar móðir hans, Jeanine Girard-Moorman, á samfélagsmiðla.

Ekki liggur fyrir hvernig slysið varð, en Miller mun hafa verið að notast við reipi þegar það átti sér stað.

Á undanförnum misserum hafði Miller vakið mikla athygli fyrir klifurafrek sín, bæði um McKinley-fjall, sem einnig gengur undir nafninu Denali, sem er hæsta fjall Norður-Ameríku, og í Patagóníu og Kanada.

El Capitan er að finna í Yosemite-þjóðgarðinum í Kaliforníu. Andlát Millers er það þriðja í þjóðgarðinum það sem af er ári. Átján ára piltur lést í júní þegar hann klifraði án þess að nota reipi, og maður á þrítugsaldri lést í ágúst þegar stór grein féll á höfuð hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×