Erlent

Fyrsta konan sem verður erki­biskupinn af Kantara­borg

Atli Ísleifsson skrifar
Sarah Mullally varð prestur árið 2002 og varð árið 2015 ein fyrsta konan til að fá biskupatign innan ensku þjóðkirkjunnar.
Sarah Mullally varð prestur árið 2002 og varð árið 2015 ein fyrsta konan til að fá biskupatign innan ensku þjóðkirkjunnar. AP

Sarah Mullally verður fyrsta konan til leiða þjóðkirkju Englands þegar hún verður formlega skipuð erkibiskupinn af Kantaraborg.

Frá þessu var greint í morgun en hún tekur formlega við embættinu í mars á næstu árum. Mullally verður 106. erkibiskupinn af Kantaraborg í 1.400 ára sögu þjóðkirkju Englands.

Erlendir fjölmiðlar segja að hópur íhaldsmanna í kirkjum víða í Afríku og Asíu hafi gagnrýnt skipun Mullally sem er einnig menntaður hjúkrunarfræðingur.

Í ávarpi segir Mullally að hún finni fyrir „mikilli ábyrgð“ vegna skipunarinnar en að hún finni fyrir „friði og trú á að guð muni bera [sig]“ í verkefnunum fram undan.

Hún verður skipuð erkibiskupinn af Kantaraborg í janúar næstkomandi og tekur formlega við stjórnartaumunum í þjóðkirkju Englands í mars á næsta ári.

Mullally tekur við embætti erkibiskups af Kantaraborg af Justin Welby sem afsalaði sér hempunni í nóvember síðastliðnum í kjölfar gagnrýni sem beindist að honum vegna viðbragða hans í kynferðisbrotahneyksli sem skók kirkjuna.

Alls eru um 85 milljónir meðlima þjóðkirkju Englands (e. Church of England). Þó að Karl III Bretakonungur sé formlega æðsti leiðtogi kirkjunnar þá er erkibiskupinn af Kantaraborg æðsti biskup kirkjunnar og andlegur leiðtogi safnaðarins.

GAFCON, hópur íhaldssamra kirkna sem tengjast ensku þjóðkirkjunni, hafa í dag gagnrýnt skipan Mullally og segja að enski armur kirkjunnar hafi með skipuninni „afsalað sér forystuvaldi sínu“.

Mullally varð prestur árið 2002 og varð árið 2015 ein fyrsta konan til að fá biskupatign innan ensku þjóðkirkjunnar. Hún hefur gegnt hlutverki biskups í London síðan 2018 og þykir frjálslynd í skoðunum. Hefur hún meðal annars talað fyrir réttindum hinsegin fólks.

Enska þjóðkirkjan kynnti breytingar fyrir ellefu árum sem gerðu konum heimilt að taka við stöðu erkibirkups.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×