Tíska og hönnun

Kláraði lög­fræði meðan hún sat fyrir hjá Dior

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Kristín Lilja Sigurðardóttir lögfræðingur og fyrirsæta ræddi við blaðamann um lífið, bransann, skemmtileg verkefni og tilveruna.
Kristín Lilja Sigurðardóttir lögfræðingur og fyrirsæta ræddi við blaðamann um lífið, bransann, skemmtileg verkefni og tilveruna. Vísir/Anton Brink

„Gucci flaug mér til Parísar og svo bara degi fyrir sýningu hætta þau við að hafa mig á sýningunni,“ segir fyrirsætan og lögfræðingurinn Kristín Lilja Sigurðardóttir sem hefur upplifað ýmis ævintýri á síðustu árum og ferðast um allan heim við fjölbreytt fyrirsætustörf. Blaðamaður ræddi við hana og fékk að heyra nánar frá.

Kristín Lilja Sigurðardóttir er fædd árið 1997 og býr í vesturbænum ásamt sambýlismanni sínum Ágústi Erni og drengjunum þeirra tveimur. 

Hún starfar í dag sem lögfræðingur hjá Reykjavíkurborg ásamt því að stökkva reglulega inn í spennandi fyrirsætuverkefni sem eru ekki af smærri endanum en hún var sem dæmi í risastórri herferð tískurisans Zöru.

„Afhverju er þessi maður að stara á mig?“

„Ég byrja aðeins að módelast hér á Íslandi þegar ég er sextán ára. Samhliða menntaskóla var ég að vinna á bar niðri í bæ og þar sá Ási, sem starfar hjá fyrirsætuskrifstofunni Ey, mig fyrst. 

Ég man eftir að hafa hugsað: „Afhverju er þessi maður að stara svona á mig?“ Hann býður mér að fara á skrá hjá þeim og ég hélt að það yrði ekkert stórt sem kæmi út úr þessu,“ segir Kristín kímin um upphaf ferilsins.

Stuttu síðar kemur fulltrúi frá fyrirsætuskrifstofunni Next til Íslands. Er um að ræða risa batterí sem er með stór nöfn í fyrirsætubransanum á skrá um allan heim.

„Hann biður um að fá að hitta nokkrar íslenskar stelpur hjá Ey og þar á meðal mig. Ég var með mesta loddaralíðan (e. Imposter syndrome) í heimi þarna. 

Ég upplifði mig ekki beint sem einhverja rosalega skvísu því lúkkið mitt var ekki í tísku þegar ég var í menntaskóla. Þá voru allar skvísurnar með dökkar augabrúnir og brúnkukrem, þveröfugt við mig.

Svo þegar ég er aðeins komin á skrið í bransanum átta ég mig á því að það er kannski bara jákvætt að vera með útlit sem er öðruvísi og alls ekki týpískt.“

Næsta skref að módela um allan heim

Eftir fundinn með Next fær Kristín Lilja tölvupóst um að skrifstofan vilji bóka hana á alheims (world wide) samning.

„Þá var ég nítján ára og það var alveg svolítið klikkað dæmi. Ég var nýbyrjuð í lögfræði og var svona að spá hvert lífið væri að fara með mig. 

Þau vildu upphaflega fá mig út til New York en ákváðu að prófa mig í París til að byrja með. Þar er hátískan í forgrunni en í New York er eiginlega betra að vera svolítið þekktur til þess að fá verkefni, þar er allt meira commerical.“

Kristín Lilja byrjaði sextán ára að sitja fyrir hér heima og var nítján ára komin með world-wide samning. Vísir/Anton Brink

Fyrstu dagana í París fór Kristín Lilja í ýmsar myndatökur fyrir tískutímarit og fór svo í prufur fyrir tískuvikuna.

„Þetta var svona Haute Couture síðkjólasýning og ég var of lágvaxin til þess að fá gigg þar,“ segir Kristín hlæjandi en hún er 174 cm sem þykir ekki rosalega hávaxið í bransanum, þrátt fyrir að hún sé töluvert mikið hærri en blaðamaður.

Köttuð út af listrænum stjórnanda Gucci

Stuttu síðar átti hún að fara í prufur fyrir tískuvikuna í Mílanó en náði aldrei að komast þangað.

„Á sama tíma fæ ég stórt verkefni sem var að ganga tískupallinn fyrir Gucci. Gucci flaug mér út til Parísar en en svo bara degi fyrir sýningu hætta þau við minn klæðnað á sýningunni. 

Ég var búin að fara í mátun hjá þeim og var auðvitað orðin ekkert smá spennt að ganga fyrir Gucci, svo er ég bara köttuð út.

Alessando, sem var listrænn stjórnandi tískuhússins, fannst klæðnaðurinn minn bara ekki passa við restina af tískusýningunni og þá var það bara þannig. Svona er þessi bransi blákalt, þetta er ekkert persónulegt en auðvitað er þetta glatað. 

Kannski fíluðu þau mig í botn, ég veit það ekki. En auðvitað hugsaði ég þarna bara ég er glötuð og hef ekkert að gera hérna. Ég var búin að missa af prufum í Mílanó og fannst allt hálf ómögulegt.“

Gucci dyr lokast, Dior opnast

Fljótlega átti eftir að stytta upp hjá Stínu. Tveimur dögum síðar fær hún tölvupóst frá nafni sem hún kannaðist ekkert við um hvort hún kæmist í prufur samdægurs.

Stína fyrir miðju í efri línu eftir sýningu hjá Dior.Aðsend

„Ég ákvað bara að svara ekki, hélt að þetta væri eitthvað merki sem ég þekkti ekkert og var ekki peppuð. Svo hringir bókarinn í mig og segir þetta er Dior og þau báðu sérstaklega um þig. Mér fannst þetta samt ennþá of gott til að vera satt eftir hitt en ákvað að skella mér og svo bara bókuðu þau mig í sýninguna sína. 

Ég fór meira að segja í prufu fyrir hár og förðun og það eru vanalega bara tvær fyrirsætur á sýningunni sem fá að gera það. Þetta gerist bara tveimur dögum eftir að mér var harkalega hafnað af Gucci. Mesta ein hurð lokast, önnur opnast móment sem ég hef upplifað,“ segir Kristín Lilja og hlær.

TikTok í fæðingarorlofinu

Á síðustu mánuðum hefur Kristín Lilja vakið mikla athygli á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem hún hefur verið dugleg að fjalla um skemmtilegar sögur frá fyrirsætubransanum.

„Ég er að fá frekar skemmtileg viðbrögð við þessu. Þegar ég var að detta í fæðingarorlof hugsaði ég að það gæti verið skemmtilegt að leika mér aðeins á þessum miðli. 

Ég hef aldrei fundið mig almennilega á Instagram en ég elska TikTok og finnst þetta svo skemmtilega hrár miðill. Ég ákvað bara að kýla á það að birta myndbönd og byrjaði á að sýna frá nýju íbúðinni okkar fjölskyldunnar í vesturbænum.“

Í spilaranum hér að neðan má sjá skemmtilegt TikTok myndband frá Kristínu Lilju: 

Klippa: Bransasögur úr fyrirsætuheiminum

Ágúst Þór maður Kristínar Lilju er meðeigandi og framleiðslustjóri markaðsstofunnar Sahara og lumaði á ýmsum góðum ráðum.

„Hann veit hvað hann syngur og veit hvað er hax þegar það kemur að samfélagsmiðlum,“ segir Kristín Lilja kímin og bætir við: 

„Hann hvatti mig til þess að sýna meiri persónuleika og hélt að fólk hefði kannski gaman að því að heyra sögur frá fyrirsætustörfunum. Ég hafði ekki hugsað út í það en auðvitað lumar maður á mörgum frekar sérstökum og öðruvísi sögum. 

Við erum ekkert ótrúlega margar sem höfum verið fyrirsætur í fullu starfi erlendis og ég hef unnið í þremur heimsálfum. Svo fannst mér líkja eitthvað skemmtilegt að varðveita þessar minningar á filmu,“ segir Kristín Lilja brosandi.

Í verkefnum með synina

Kristín Lilja er enn í fullu fjöri í fyrirsætustarfinu samhliða lögfræðinni og móðurhlutverkinu.

„Ég er nýkomin heim úr ótrúlega skemmtilegu verkefni með yngri son minn Ara. Svo vorum við Andri, frumburður minn, saman í stórri herferð fyrir Zöru sem var ótrúlega krúttlegt og skemmtilegt. Ég hef líka verið að taka að mér skemmtileg verkefni hér heima, eins og fyrir Kalda skóna, sem ég algjörlega elska. 

Það blundar alveg í mér að prófa að fara aftur út en svo eru mörg skemmtileg tækifæri hér heima og erlend merki sem vilja koma hingað til Íslands til að skjóta herferðir.“

Starfið veitir henni undantekningalaust gleði og segist Kristín Lilja hafa náð að mynda heilbrigt og gott samband við bransann.

„Ég er að verða tvítug þegar ég fer út og ég held að það hafi hjálpað mér að vera til dæmis ekki sextán ára, eins og sumar stelpur í bransanum eru þegar þær byrja. 

Þó þetta geti að sjálfsögðu auðveldlega verið neikvætt eða eitrað umhverfi tókst mér alltaf að vera föst á mínu. Það kom aldrei til greina að fórna heilsunni fyrir starfið og ég held að það hafi líka hjálpað mér að vera með lögfræðina til hliðar.“

Enginn að kalla stelpur feitar í slaufunarmenningu

Bransinn hafi sömuleiðis tekið miklum breytingum þegar hún var að stíga sín fyrstu skref.

„Það var meira um fjölbreyttar fyrirsætur þótt það hafi auðvitað verið gríðarlega langt frá því að vera fullkomið. En mér fannst þetta vera að breytast í rétta átt. 

Slaufunarmenningin var líka allsráðandi þannig mér fannst fólk í bransanum vera upp á sitt allra besta, það þorði ekki að vera leiðinlegt því þá voru góðar líkur á því að það fengi enga vinnu aftur. Það var enginn að fara að þora að taka Karl Lagerfeld á þetta og kalla stelpur feitar.“

Hún þurfti sömuleiðis að minna sig á að vera ekki í samanburði.

„Svo skiptir persónuleikinn svo miklu máli, það hvernig þú vinnur og ert í myndatökum er svo mikilvægt.“

Hélt að Kendall Jenner myndi spjalla meira

Þau eru ófá skemmtilegu verkefnin sem Kristín Lilja hefur tekið að sér og eru nokkur augnablik úr starfinu sem standa óneitanlega upp úr.

„Til dæmis var ég hliðina á Kendall Jenner í myndatöku fyrir Adidas, það var alveg stórt móment. Hún var almennileg en mætti rétt til að vera í myndatökunni og fór svo. Ég bjóst við aðeins meiru,“ segir Kristín Lilja og hlær.

„Svo eru oft stór nöfn í fyrirsætubransanum með manni á sýningum, ég var til dæmis einu sinni á sýningu með Winnie Harlow og við spjölluðum heilmikið en ég man eftir að hafa fylgst með henni í America’s next top model fyrir löngu. 

Ég hef líka svo mikla ástríðu fyrir tískunni og það er magnað að fá að hitta stóra hönnuði, eins og Alessandro hjá Gucci og svo Donatellu Versace, það var sturlað. Þótt ég hafi aldrei flokkað sjálfa mig sem listamann þá er fyrirsætustarfið nátengt list og það er mjög skapandi. 

Ástæða þess hvað ég fíla TikTok mikið er líka þessi skapandi nálgun, að taka upp, klippa saman myndbönd og fá smá svona útrás fyrir skapandi hliðinni. Á skattskýrslu sem ég skilaði alltaf erlendis stóð líka listamaður,“ segir Kristín Lilja hlæjandi og bætir við:

„Það eru margar lúmskar hliðar við starfið. Þú getur verið rosalega góður i að taka myndir af þér heima, sem margir áhrifavaldar eru búnir að mastera, en það er flókið að vera í tökum með ljósmyndara og listrænum stjórnanda sem sýna þér hvað þau eru að leitast eftir. 

Þú þarft svo að finna út úr því, framkvæma það, ögra þér, vera opin og svo ertu svolítið að leika og búa til karakter. Þetta er kúnst.“

Hrædd um að vera send heim eftir sólbruna í Dubai

Kristín Lilja sér fram á að halda áfram að deila skemmtilegum sögum á TikTok og lumar svo sannarlega á mörgum ansi trylltum.

„Ég var til dæmis í nokkra mánuði á samningi í Japan og það var algjör klikkun. Það er svo mismunandi hvernig fólk vinnur eftir heimsálfum sem það býr í. Í Japan ferðu í myndatöku klukkan fjögur um morgun og ert að til níu um kvöldið, oft alla daga vikunnar. Það var alvöru vertíð.

Svo er ógleymanlegt þegar ég sýndi fyrir Dior í París og eftir sýningu var okkur flogið til Dubai því stór kúnnahópur þar vildi nákvæmlega sömu sýningu. Þau skelltu upp sirkustjaldi í Dubai og græjuðu allt á sólarhring.“

Eftir ferðalagið ætlaði hún svo að taka því rólega í smá.  

„Ég var svo þreytt að ég sofna óvart við sundlaugabakkann á hótelinu um morguninn, ætlaði bara rétt að slaka á þar en sofnaði í sólinni í marga klukkutíma. 

Svo vakna ég bara liggur við með þriðja stigs bruna á bakinu og kjóllinn sem ég átti að klæðast var baklaus. Ég fríkaði algjörlega út og lá í rúminu með jógúrt á mér allri þangað til ég átti svo að mæta í mátun. 

Stílistinn spurði bara: „Kristín áttarðu þig á því að þú ert með rosalegan sólbruna á bakinu?“ Ég þóttist ekkert vita um það og gerði lítið úr því en var logandi hrædd um að vera bókstaflega bara send aftur heim, en með hjálp nokkurra förðunarfræðinga reddaðist þetta blessunarlega.“

Tískuheimurinn leitist í auknum mæli eftir eldri konum

Kristín Lilja hefur að sama skapi verið í módelverkefnum með báða syni sína og segir áhugann ekki hafa dvínað í kjölfar móðurhlutverksins.

„Ég hugsaði ekkert að þessi ferill væri búinn þegar ég var ólétt en einbeitti mér kannski frekar að lögfræðinni. Núna er tískubransinn líka þannig að það er í auknum mæli verið að leita að eldri konum. 

Konur yfir sextugt eru í dag að ganga tískupallana líka en það er líka sá aldur sem er kúnnahópurinn, ekki tvítugar stelpur og auðvitað meikar það sens, það er mikilvægt að ná til kúnnans,“ segir hin kraftmikla Kristín Lilja létt í lundu að lokum. 

Hér má fylgjast með skemmtilegum sögum Kristínar Lilju á samfélagsmiðlinum TikTok. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.