Sport

Stefndi á ÓL en lést í slysi á æfingu

Sindri Sverrisson skrifar
Naufal Takdir Al Bari ætlaði sér stóra hluti í fimleikunum.
Naufal Takdir Al Bari ætlaði sér stóra hluti í fimleikunum. FIG

Hinn 19 ára gamli Naufal Takdir Al Bari stefndi á keppni í fimleikum á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 2028. Hann lést eftir slys á æfingu í Rússlandi.

Indónesíska fimleikasambandið greindi frá andláti þessa unga íþróttamanns eftir að hann hafði verið í tólf daga á gjörgæslu þar sem reynt var að bjarga lífi hans.

Al Bari mun hafa látist vegna alvarlegra meiðsla á hálsi, eftir að hann féll ofan í gryfju þegar hann var við æfingar á slá.

Samkvæmt erlendum miðlum hafði hann sett stefnuna á næstu Ólympíuleika en ætlaði sér fyrst að standa sig vel á heimavelli, á HM í Jakarta í næsta mánuði.

„Indónesískir fimleikar hafa misst landsins besta mann. Þetta er þungt högg og mikil sorg fyrir okkur. Megi fjölskyldu hans vera veittur styrkur,“ sagði Ita Yuliati, talskona indónesíska fimleikasambandsins, sem lýsti Al Bari sem hæfileikaríkum íþróttamanni og góðri manneskju.

Fox News hefur eftir varaformanni rússneska fimleikasambandsins, Vasily Titov, að Al Bari hafi verið að reyna æfingar sem hann var ekki búinn undir.

„Við höfum lokið nauðsynlegri rannsókn og nú liggur fyrir hverjar aðstæðurnar voru þegar meiðslin urðu. Því miður var íþróttamaðurinn ekki undirbúinn fyrir svo flókna aðgerð,“ sagði Titov en ekki liggur fyrir hvaða æfingu Al Bari var að reyna að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×