Viðskipti innlent

Far­þegar Play í Kefla­vík klóra sér í kollinum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Anton Ingi er nú á Keflavíkurflugvelli ásamt hópi farþega sem átti flug til Tenerife klukkan 10:30.
Anton Ingi er nú á Keflavíkurflugvelli ásamt hópi farþega sem átti flug til Tenerife klukkan 10:30.

Anton Ingi Rúnarsson knattspyrnuþjálfari er einn þeirra farþega Play sem situr nú eftir á Keflavíkurflugvelli án flugs eftir gjaldþrot félagsins. Hann átti flug til Tenerife núna klukkan 10:30 og var á klósettinu þegar hann fékk tíðindin af falli félagsins. Miðann keypti hann fyrir gjafabréf sem hann fékk eftir ótrúlega seinkun á flugi félagsins í vetur.

„Maður stóð bara þarna að pissa þegar maður fékk símhringingarnar. Það var komið upp „go to gate“ á skjáinn og það var þannig í tíu mínútur í viðbót. Ég hugsaði þarna að ég yrði síðasti farþegi Play en það varð ekki,“ segir Anton Ingi í samtali við Vísi, merkilega brattur miðað við aðstæður. Síðar hafi loksins birst skilaboðin „Cancelled“ á skjánum. Flugferðin átti að hefjast 10:30 en tilkynnt var um að flugfélagið Play væri hætt starfsemi fyrir klukkan tíu. 

Anton Ingi sem þjálfar knattspyrnu í Grindavík var á leið til Tenerife ásamt eiginkonu sinni en er nú eftir ásamt öðrum farþegum á Keflavíkurflugvelli. Hann segir farþega nokkuð ringlaða og klóra sér í kollinum yfir því hvað þeir eigi að gera, enda óvenjulegar aðstæður svo vægt sé til orða tekið.

„Fólk er mikið að pæla í því í kringum mig hérna hvort það megi nota tollinn á leiðinni út. Fólk veit það ekki, starfsmaður sagði okkur að hann væri ekki viss. Fólk er bara að týna töskur af beltinu núna.“

Anton segir það ekki koma til greina að láta fall Play ræna sig fríinu erlendis. Þau séu að ráða ráðum sínum hvað þau geri, það sé annað hvort að kaupa annað flug til Tenerife eða fara einfaldlega bara eitthvert allt annað.

„Nýta fríið í fótboltanum þessar tvær vikur sem maður nær að hoppa, það er helvíti svekkjandi að hafa misst af þessu flugi. Markmiðið í dag er að bóka annað flug.“

Hvernig er tilfinningin að sitja eftir í Keflavík við svona aðstæður?

„Maður veit ekki hvort maður eigi að hlæja eða grenja að þessu. Ætli maður verði ekki bara að hlæja að þessu.“

Hann segir það svo ótrúlegt mál að hafa keypt miðann til Tenerife með gjafabréfi sem hann fékk eftir að flug sem hann átti með félaginu í vetur seinkaði um rúmar 36 klukkustundir. „Þetta er ferðin sem ég ætlaði að fara í í staðinn, það er trixið í þessu, gjafabréfið felldi Play,“ segir Anton í gríni. 


Tengdar fréttir

Þetta eru réttindi þeirra sem eiga bókað með Play

Það skiptir máli fyrir þá sem hyggjast fá endurgreitt frá Play vegna flugferðar sem ekki var farið í eftir gjaldþrot félagsins, hvernig greitt var fyrir ferðina. Gjafabréf enda sem kröfur í þrotabú. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×