Körfubolti

Mynd af ellefu ára leik­manni Real vekur at­hygli

Sindri Sverrisson skrifar
Framtíðarleikmenn stórvelda? Mohamed Dabone (t.v.) er enn 13 ára en búinn að spila æfingaleik með Barcelona. Moussa Balla Traoré (t.h.) er 11 ára og kominn í U14-lið Real Madrid.
Framtíðarleikmenn stórvelda? Mohamed Dabone (t.v.) er enn 13 ára en búinn að spila æfingaleik með Barcelona. Moussa Balla Traoré (t.h.) er 11 ára og kominn í U14-lið Real Madrid. Samsett/Getty/Real Madrid

Á meðan að erkifjendurnir í Barcelona undirbúa að koma hinum 13 ára gamla og 210 sentímetra Mohamed Dabone inn í sitt lið hefur Real Madrid nú fengið 11 ára strák sem virðist ekki heldur nein smásmíði.

Dabone hefur þegar fengið að spreyta sig í æfingaleik með aðalliði Barcelona og samkvæmt spænskum miðlum vinna Börsungar nú að því að fá leyfi fyrir því að hann spili í efstu deild Spánar og Euroleague.

Dabone kom til Barcelona frá Búrkína Fasó árið 2022 og verður 14 í næsta mánuði en samkvæmt spænskum lögum þurfa krakkar að hafa náð 16 ára aldri til að mega vinna. Joan Penarroya, þjálfari Barcelona, mun hafa íhugað að láta Dabone spila strax á síðustu leiktíð en samkvæmt Cadena SER strandaði það á leyfismálum sem nú er í vinnslu að klára.

Nú gæti svo annar ungur strákur farið að vekja athygli, eftir að Real fékk hinn 11 ára Moussa Balla Traoré.

Myndin af honum á heimasíðu Real hefur að minnsta kosti strax vakið mikla athygli þar sem netverjum þykir hann hafa ansi mikla líkamlega burði og grínast með að hann hljóti frekar að eiga 11 ára son sjálfur.

Traoré, sem er frá Malí, verður ekki 18 ára fyrr en 24. október 2031. Honum er ætlað að spila með U14-liði Real til að byrja með en spænskir miðlar segja alveg ljóst að hann standi upp úr hvað líkamlega burði snertir.

Það verður svo að koma í ljós hvort að Dabone eða Traoré takist að slá metið sem Bassala Bagayoko frá Malí setti vorið 2021, þegar hann varð yngsti leikmaður í sögu ACB-deildarinnar með því að spila fyrir Fuenlabrada, aðeins 14 ára og 7 mánaða gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×