Innlent

„Nauð­syn­legt að þetta verði gert af krafti“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Runólfur Pálsson er forstjóri Landspítalans.
Runólfur Pálsson er forstjóri Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Forstjóri Landspítalans segir nauðsynlegt að kraftur verði settur í byggingu framtíðarhúsnæðis fyrir geðsþjónustu í Fossvogi. Núverandi húsnæði sé úrelt og staðan því erfið.

Deiliskipulagsgerð er hafin fyrir framtíðarhúsnæði geðþjónustu í Fossvogi og er búist við að það liggi fyrir snemma á næsta ári og fari þá í kynningarferli.

 Runólfur Pálsson forstjóri spítalans segir að gert sér ráð fyrir nútímalegri hönnun með opnum inngörðum. Áhersla verði lögð á fremstu gæði varðandi aðbúnað og upplifun sjúklinga og starfsfólks.

„Legurýmin sem gert er ráð fyrir verða 122 ef ég man rétt, svo eru aðstæður fyrir ferliþjónustu sem er mikilvæg í geðþjónustu. Byggingin mun kosta einhverja milljarða.. Ég vonast til þess að húsnæðið verði risið eftir 5-6 ár. Það er alveg nauðsynlegt að þetta verði gert af krafti,“ segir Runólfur.

Ljós við endann á göngunum

Runólfur segir áætlað sé að byggja 20-30 fleiri legurými en séu nú á spítalanum. Það sé í takt við áætlanir um fyrirliggjandi þörf. Það sé hins vegar stöðugt verið að endurmeta töluna. Hann segir að núverandi geðdeildir á Hringbraut og Kleppspítala muni færast í nýja húsnæðið sem er áætlað á lóð sem stendur sunnan við Fossvogsspítala. Runólfur segir núverandi húsnæði úrelt og telur að það verði erfitt að bíða eftir nýja húsnæðinu.

„ Staðan á Landspítalanum hvað varðar húsnæði er erfið.  Þetta eru úreltar byggingar, áratuga gamlar, fimmtíu ára gamlar en engu að síður sjáum við ljós við endann á göngunum þegar komin er ákvörðun,“ segir Runólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×