Erlent

Miklar tafir á fjölda flug­valla vegna netárásar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Netárásin hefur áhrif á innritunarferli fjölda flugvalla. Myndin er úr safni.
Netárásin hefur áhrif á innritunarferli fjölda flugvalla. Myndin er úr safni. EPA

Stórir alþjóðaflugvellir í Evrópu geta ekki innritað farþega rafrænt vegna netárásar. Árásin hefur leitt til mikilla tafa á flugferðum vítt og breitt um álfuna.

Í tilkynningu frá fulltrúum flugvallarins í Brussel í Belgíu segir að netárásin hafi átt sér stað að kvöldi til þann 19. september. Árásin var gerð á kerfi Collins Aerospace, sem sér um innritunar- og brottfarakerfi fjölda flugfélaga. 

Um sama vandamál er að ræða á Brandenburg-flugvellinum í Berlín og Heathrow-flugvelli í Lundúnum, sá síðarnefndi er einn fjölfarnasti flugvöllur heimsálfunnar. Í Lundúnum er verið að innrita alla farþega handvirkt samkvæmt tilkynningu. Í Brussel er búist við að netárásin hafi mikil áhrif á flugferðir.

„Við erum að vinna í því að leysa málið og endurheimta fulla virkni kerfisins fyrir viðskiptavini okkar eins hratt og hægt er,“ segir í tilkynningu frá Collins Aerospace samkvæmt AP.

„Áhrifin eru takmörkuð við rafræna innritun viðskiptavina og farangursafhendingu og hægt er að draga úr áhrifunum með því að innrita farþega handvirkt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×