Erlent

Norska krónprinsessan í veikinda­leyfi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Mette-Marit krónprinsessa og dóttir hennar Ingrid Alexandra.
Mette-Marit krónprinsessa og dóttir hennar Ingrid Alexandra. EPA

Norska krónprinsessan Mette-Marit er á leið í veikindaleyfi vegna lungnasjúkdóms og ætlar hún að leita sér meðferðar. Tilkynningin kemur í kjölfar ákæru á hendur syni hennar sem grunaður er um að hafa brotið á fjórum konum.

Mette-Marit er eiginkona Hákons krónprins, sonar norsku konungshjónanna. Fyrir hálfu ári síðan var greint frá að Mette-Marit væri með lungnasjúkdóm sem kallast lungnatrefjun. Í októbermánuði hyggst hún taka sér frí frá opinberum skyldum sínum og leita sér meðferðar en í henni felst fræðsla um sjúkdóminn og einstaklingsbundin ráðgjöf.

„Krónprinsessan finnur fyrir einkennum daglega og hindrar það hana í að taka þátt í daglegum skyldum hennar. Krónprinsessan þarfnast hvíldar,“ segir í tilkynningu frá norsku konungsfjölskyldunni en NRK greinir frá. Þetta þýði einnig að fleiri breytingar geti orðið á dagatali Mette-Marit, oft með stuttum fyrirvara.

Samkvæmt fræðsluefni Landspítalans er lungnatrefjun sjúkdómur þar sem trefjaríkur bandvefur myndast í lungunum. Það gerir sjúklingnum erfitt fyrir að anda og loftskipti í lungunum skerðast. Ekki er til lækning við sjúkdómnum en ýmislegt er hægt að gera til að bæta líðan og lífsgæði sjúklinga.

Ákærður í 32 ákæruliðum

Maríus Borg Høiby, sonur Mette-Marit úr fyrra sambandi, hefur einnig verið mikið í sviðsljósinu undanfarið en hann hefur verið ákærður í 32 ákæruliðum, þar af fyrir fjórar nauðganir gegn konum. Þá er hann einnig ákærður fyrir ofbeldisbrot gegn fyrrverandi kærustu.

Marius neitar sök í öllum helstu ákæruliðum. Mál hans fer fyrir dóm um miðjan janúar og gert er ráð fyrir að málsmeðferðin muni taka um sex vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×