Körfubolti

Ólöf Helga tekur við stjórninni: „Orðnar mjög spenntar fyrir fyrsta þætti“

Sindri Sverrisson skrifar
Ólfö Helga Pálsdóttir stýrir nú Körfuboltakvöldi þar sem fjallað verður um Bónus-deild kvenna í vetur. Haukakonur hafa þar titil að verja.
Ólfö Helga Pálsdóttir stýrir nú Körfuboltakvöldi þar sem fjallað verður um Bónus-deild kvenna í vetur. Haukakonur hafa þar titil að verja. Samsett/Vísir

„Ég er mjög spennt. Búin að vera í þessu í nokkur ár núna og það verður gaman að prófa núna nýjar áherslur,“ segir Ólöf Helga Pálsdóttir, nýr stjórnandi Bónus Körfuboltakvölds kvenna á Sýn Sport.

Ólöf Helga, sem er fyrrverandi landsliðskona og þjálfaði Hauka og Grindavík, hefur verið einn af sérfræðingum Körfuboltakvölds síðustu ár en tekur nú við stjórnartaumunum af Herði Unnsteinssyni sem horfinn er til annarra starfa.

Þátturinn verður að vanda strax að lokinni hverri umferð, á miðvikudagskvöldum, en upphitunarþáttur tímabilsins verður á föstudaginn eftir viku.

„Við munum koma með einhverjar breytingar. Taka væntanlega aftur upp lið umferðarinnar, vera með framlengingu og halda áfram með tippleikinn svo eitthvað sé nefnt. Þetta verður mjög skemmtilegt,“ segir Ólöf.

Ólöf Helga Pálsdóttir var einn af sérfræðingum Bónus Körfuboltakvölds síðustu ár.

Það verður erfitt að toppa lokin á síðasta tímabili, þegar Haukar urðu Íslandsmeistarar eftir sigur gegn Njarðvík í spennutrylli í oddaleik, en Ólöf býst aftur við afar spennandi keppni í vetur:

Spenna fyrir nýliðunum

„Við stelpurnar höfum fylgst vel með upphitunartímabilinu og erum orðnar mjög spenntar fyrir fyrsta þætti.

Ég er að vonast til þess, og það lítur þannig út, að deildin verði eins jöfn og í fyrra. Vonandi er hún bara að styrkjast og áfram á uppleið, og við með. Nýliðarnir eru flottir. Það verður gaman að sjá Ármann loksins í úrvalsdeild, Hamar/Þór er áfram í deildinni þrátt fyrir fallið og stóð sig vel á Óla Jó mótinu, og KR er líka virkilega spennandi lið með unga og efnilega leikmenn sem við höfum beðið eftir að sjá á þessu sviði. Við eigum von á veislu í vetur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×