Skoðun

Grafið undan grunn­stoð sam­fé­lagsins

Fjölskyldan er grunnur samfélagsins. Þess vegna vekur furðu og áhyggjur að fyrsta fjárlagafrumvarp Daða Más Kristóferssonar fyrir ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur virðist líta fram hjá þeirri staðreynd. Þvert á loforð um að hækka ekki skatta og álögur á fólk og fyrirtæki eru lagðar til breytingar sem bitna sérstaklega á barnafjölskyldum og ungu fólki sem er að byggja upp heimili.

Afnám séreignarsparnaðarleiðarinnar og samsköttunar hjóna eru þar skýrustu dæmin. Séreignarsparnaðurinn hefur hjálpað ungu fólki að greiða niður húsnæðislán, skapað skjól fyrir fjölskyldur og dregið úr greiðslubyrði á þeim tíma þegar útgjöld eru mest.

Samsköttun hefur veitt sveigjanleika þegar annað foreldri er með lægri tekjur eða er tímabundið utan vinnumarkaðar vegna barna. Með því að afnema báðar leiðirnar á sama tíma er verið að minnka ráðstöfunartekjur heimilanna á því skeiði sem þau þurfa mest á þeim að halda.

Á sama tíma eru sett fram flókin og ógagnsæ gjöld, eins og kílómetragjald, sem hækka kostnað sérstaklega fyrir fjölskyldur á landsbyggðinni sem treysta á bíl til daglegra ferða. Þessar aðgerðir eru réttlættar sem „leiðréttingar“ og „sanngirni“, en í reynd eru þær skattahækkanir sem veikja stöðu millistéttarinnar sem er sá hópur sem heldur samfélaginu gangandi. Sá hópur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf barist fyrir.

Ef ætlunin er að byggja upp sjálfbært hagkerfi og heilbrigt samfélag verður að styrkja fjölskyldur, ekki veikja þær. Fjárlög sem grafa undan fjárhagslegum stöðugleika barnafjölskyldna eru ekki aðeins ranglát - þau grafa undan framtíð samfélagsins.

Höfundur er ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×