Fótbolti

Birkir Bjarna­son leggur skóna á hilluna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birkir Bjarnason í einum af 113 landsleikjum sínum.
Birkir Bjarnason í einum af 113 landsleikjum sínum. vísir/vilhelm

Leikjahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins frá upphafi, Birkir Bjarnason, hefur lagt skóna á hilluna.

Birkir greindi frá þessari ákvörðun sinni í færslu á Instagram í dag. 

„Eftir mikla íhugun hef ég ákveðið að hætta í atvinnumennsku í fótbolta. Þetta hefur ekki verið auðveld ákvörðun, en ég tek hana með stolti yfir þeim árangri sem náðst hefur og þakklæti fyrir þau tækifæri, reynslu og minningar sem fótboltinn hefur gefið mér. Þessi reynsla hefur mótað mig á marga vegu og mun fylgja mér áfram næstu kafla lífs míns. Takk fyrir mig!“ skrifaði Birkir á Instagram. Hann ritaði þetta einnig á ensku og ítölsku.

Hinn 37 ára Birkir kom víða við á ferlinum en hann lék með félagsliðum í sjö löndum: Noregi, Belgíu, Ítalíu, Sviss, Englandi, Katar og Tyrklandi.

Birkir lék 113 landsleiki á árunum 2010-22 og skoraði fimmtán mörk. Hann lék alla átta leiki Íslands á EM 2016 og HM 2018. Birkir er leikjahæstur í sögu íslenska landsliðsins og sá sjötti markahæsti.

Birkir lék síðast með Brescia á Ítalíu. Síðasti leikur hans á ferlinum var í 2-1 sigri á Reggiana 13. maí síðastliðinn. Hann lék einnig með Pescara og Sampdoria á Ítalíu, Viking og Bodø/Glimt í Noregi, Standard Liege í Belgíu, Basel í Sviss, Aston Villa á Englandi, Al-Arabi í Katar og Adana Demirspor í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×