Íslenski boltinn

Sjáðu gullstrákana í Vestra fagna: „Vorum bara miklu stærra lið“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Davíð Smári Lamude heldur hér ræðuna sína og strákarnir hans standa fyrir aftan með bikarinn.
Davíð Smári Lamude heldur hér ræðuna sína og strákarnir hans standa fyrir aftan með bikarinn. Hafþór Gunnarsson

Vestramenn tryggðu sér bikarmeistaratitilinn með sigri á Val á Laugardalsvellinum á föstudaginn og það var afar vel tekið á móti þeim þegar þeir mættu með bikarinn heim á Ísafjörð.

Vestri varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 1-0 sigurinn gegn Val, þar sem Jeppe Pedersen skoraði eina mark leiksins með stórkostlegu langskoti.

Bæjarbúar fjölmenntu á Silfurtorgið í miðbænum þar sem haldin var sérstök móttaka fyrir hetjurnar.

Klippa: Vestrafólk fagnar á Silfurtorginu

Vestri hafði komið mörgum á óvart með því að komast alla leið í bikarúrslitaleikinn en þar mættu Djúpmenn aftur á móti toppliði Bestu deildar karla.

Vestri var því litla liðið en eins og oft áður undir stjórn kappmikla þjálfar síns Davíðs Smára Lamude þá spilaði liðið mjög skipulagðan leik, barðist fyrir öllum boltum allar níutíu mínúturnar og nýtti svo tækifærið þegar það gafst.

Davíð Smári hélt ræðu á Silfurtorginu.

„Að finna stuðninginn í aðdraganda leiksins og þegar maður mætti á leikstað. Sjá bara öll þessi andlit. Við vorum bara miklu stærra lið heldur en Valur í öllum aðdraganda og í öllum undirbúningi leiksins,“ sagði Davíð Smári Lamude í ræðu sinni og fékk mikið klapp.

„Það er eitthvað sem er bara ógleymanlegt,“ sagði Davíð en hann og strákarnir, sungu, dönsuðu og fögnuðu á sviðinu fyrir framan stuðningsfólk sitt sem fjölmennti ekki aðeins á leikinn heldur einnig á þessa litlu bæjarhátíð.

Það má sjá þessa ógleymanlegu stund í sögu Vestra hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×