Innlent

13,3 milljarðar frá Ís­landi til Úkraínu: Danska leiðin „ein sú besta“ til að styrkja varnir Evrópu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Íbúar fallast í faðma við byggingu sem lögð var í rúst í árás Rússa í Kænugarði þann 17. júní síðastliðinn, á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Í dag, 24. ágúst, halda Úkraínumenn upp á sinn sjálfstæðisdag. 
Íbúar fallast í faðma við byggingu sem lögð var í rúst í árás Rússa í Kænugarði þann 17. júní síðastliðinn, á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Í dag, 24. ágúst, halda Úkraínumenn upp á sinn sjálfstæðisdag.  AP/Efrem Lukatsky

Heildarstuðningur Íslands við Úkraínu hefur numið rúmum þrettán milljörðum frá upphafi allsherjarinnrásar Rússa. Úkraínskur framleiðandi drónahugbúnaðar segir hina svokölluðu dönsku leið, sem Ísland hefur stutt, vera eina áhrifaríkustu leiðina til að styðja við Úkraínu.

Samkvæmt nýrri samantekt utanríkisráðuneytisins fyrir fréttastofu hefur heildarstuðningur Íslands við Úkraínu það sem af er þessu ári numið 3,9 milljörðum króna. Þar af eru 1,6 milljarðar vegna mannúðar- og efnahagsstuðnings og 2,3 milljarðar í varnartengdan stuðning. Alls er gert ráð fyrir að stuðningur Íslands við Úkraínu á árinu nemi 5,7 milljörðum króna, 2,1 milljarður vegna mannúðarmála og 3,6 í varnartengdan stuðning.

Frá upphafi allsherjarinnrásar Rússa inn í Úkraínu í febrúar 2022 og til og með 18. ágúst síðastliðnum hefur stuðningur Íslands við Úkraínu numið 13,3 milljörðum króna. Þar af hafa rúmir sjö runnið í varnartengd verkefni og sex í mannúðar- og efnahagsstuðning.

Mest fjármagn hefur runnið í sjóði Alþjóðabankans á sviði efnahagsstuðnings, innviðauppbyggingar og grunnþjónustu, í sjóð á vegum ríkjahóps um sprengjuleit og -eyðingu, færanlegt neyðarsjúkrahús, framlög til orkumála og mannúðaraðstoð á sviði stofnana Sameinuðu Þjóðanna. Hér að neðan má sjá sundurliðun yfir það fjármagn sem Íslendingar hafa varið í stuðning við Úkraínu eftir málaflokkum.

Líkt og sjá má í grafinu hér að ofan hefur Ísland sett um átta hundruð milljónir í stuðning við úkraínskan hergagnaiðnað í gegnum dönsku leiðina svokölluðu. Úkraínskir hergagnaframleiðendur sem sóttu ráðstefnu um hergagnaiðnaðinn í Kaupmannahöfn í síðustu viku segja dönsku-leiðina vera eina þá skilvirkustu til að styðja við Úkraínu.

Peningarnir fari beint inn í hagkerfið

Hugmyndin með dönsku leiðinni er að veita fjármagni beint til framleiðslu hergagna í Úkraínu. Þessi leið til að styðja við varnir Úkraínu hefur, eins og ef til vill gefur að skilja, gefist vel að mati þarlendra hergangaframleiðenda.

Einn þeirra er Yurii Stasinchuk, framkvæmdastjóri FoxFour, úkraínsks nýsköpunarfyrirtækis sem sérhæfir sig í drónatækni.

„Peningarnir fara þannig beint inn í úkraínska hagkerfið sem þýðir að það eru fleiri störf, en það eru mörg fyrirtæki sem hafa verið flutt vegna stríðsins. Þannig þetta hefur jákvæð áhrif á allt úkraínska hagkerfið annars vegar. Hins vegar uppfylla úkraínsk vopn best þarfirnar á vígvellinum og fyrst verksmiðjurnar eru á sama svæði og notandinn þýðir það að hægt er að bregðast hraðar við. Svo þetta er ein besta leiðin til að styrkja varnir Úkraínu, og Evrópu,“ segir Yurii.

Yurii Stasinchuk, framkvæmdastjóri FoxFour, og samstarfsmaður hans Volodynyr Zabulskyi.Vísir/Elín Margrét

Tæknin sem FoxFour þróar felst meðal annars í sjónrænni leiðsögu og greiningu skotmarka en vörur fyrirtækisins geta nýst bæði í hernaðarlegum og borgaralegum tilgangi að sögn Yurii.

„Við erum birgjar fyrir úkraínska herinn og aðra evrópska heri, þannig við framleiðum ekki sjálfa drónana heldur útvegum einingar til ýmissa notenda. Þetta getur verið sjónræn leiðsaga fyrir borgaralegan markað, það getur verið greining staðsetningar fyrir notendur í hernaði og svo framvegis,“ útskýrir hann í samtali við fréttastofu.

Annars konar stríðsrekstur kalli á annars konar lausnir

Hann segir að stuðningur bandamanna Úkraínu, þar á meðal Danmerkur og annarra Norðurlanda, skipta gríðar miklu máli. Ekki aðeins fyrir Úkraínu heldur fyrir Evrópu alla. Eðli stríðsins í Úkraínu hafi sýnt fram á að hugsa þurfi varnar- og öryggismál að einhverju leyti upp á nýtt, ekki dugi að draga lærdóm af fyrri stríðum í álfunni.

„Við verðum að fara að taka varnarmál alvarlega. Allir hershöfðingjar búa sig undir síðasta stríð, ekki það næsta, í þessu tilfelli. En stríðið í Úkraínu hefur sýnt að ef maður býr sig undir fyrra stríð þá bíður maður í lægri hlut í átökum og mörgum mannslífum hefði getað verið bjargað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×