Erlent

Mega neita þeim að­gengi sem bera keffiyeh

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konan hugðist bera klútinn í mótmælaskyni en var settur stóllinn fyrir dyrnar af dómstólum.
Konan hugðist bera klútinn í mótmælaskyni en var settur stóllinn fyrir dyrnar af dómstólum. Getty

Dómstóll í Þýringalandi í Þýskalandi hefur komist að þeirri niðurstöðu að stjórnendur safnsins sem nú er rekið í Buchenwald útrýmingarbúðunum sé heimilt að neita þeim inngöngu sem bera svokallaðan keffiyeh klút.

Keffiyeh er hefðbundinn höfuðbúnaður karlmanna í sumum ríkjum Mið-Austurlanda en er einnig tákn stuðningsmanna Palestínu.

Það var kona sem fór með málið fyrir dómstóla eftir að henni var neitað um aðgengi að safninu í vor, þar sem hún bar klútinn. Hafði hún í hyggju að sækja viðburð sem efnt var til vegna þess að 80 ár eru liðin frá því að búðirnar voru frelsaðar.

Konan fór fram á að dómstólar staðfestu að hún mætti mæta á annan viðburð í þessari viku, með klútinn, en dómstóllinn tók afstöðu með safninu. 

Stjórnendur safnsins voru sagðir í fullum rétti við ákvarðanatökuna, ekki síst í ljósi yfirlýstra markmiða konunnar, sem vildi bera klútinn til að senda pólitísk skilaboð gegn „einhliða stuðningi safnsyfirvalda við stefnu ísraelskra stjórnvalda“.

Safnið hefur sætt gagnrýni eftir að gögnum var lekið þar sem keffiyeh klúturinn var sagður nátengdur tilraunum til að útrýma Ísraelsríki. 

Framkvæmdastjórinn Jens-Christian Wagner sagði að um mistök væri að ræða. Klúturinn væri ekki tákn einn og sér, heldur þyrfti að horfa á samhengið.

Um það bil 340 þúsund manns voru hýstir í Buchenwald, þar af létust 56 þúsund. Sumir voru teknir af lífi, á meðan aðrir létust af völdum vannæringar eða í kjölfar vinnuþrælkunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×