Innlent

Leysi­geisla beint að tveimur flug­vélum í að­flugi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leysigeisla var beint að tveimur flugvélum í aðflugi.
Leysigeisla var beint að tveimur flugvélum í aðflugi. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitaði í gærkvöldi eða nótt að einstakling eftir að tilkynning barst frá flugturninum á Reykjavíkurflugvelli um að leysigeisla hefið verið beint að tveimur flugvélum í aðflugi.

Leitað var við líklega staðsetningu sem flugmennirnir gáfu upp en án árangurs.

Einn var handtekinn í miðborginni eftir að hafa ítrekað reynt að stofna til slagsmála á bar. Viðkomandi var með hníf á sér og töluvert ölvaður. 

Þá var annar handtekinn í miðborginni en sá var sagður hafa ráðist á vegfaranda með höggum og spörkum, að tilefnislausu. Þolandinn virðist hafa dottið í götuna þar sem árásarmaðurinn sparkaði í hann liggjandi. Samkvæmt lögreglu var hann æstur og ósamvinnuþýður og var því vistaður í fangageymslu. 

Tveir voru handteknir í Hafnarfirði, þar sem þeir höfðu komið sér fyrir í stigagangi. Báðir voru verulega ölvaðir, voru að reykja og höfðu kastað af sér vatni.

Lögreglu barst einnig tilkynning um umferðarslys þar sem annar ökumanna virtist undir áhrifum. Það reyndist rétt og var sá handtekinn. Þá var tilkynnt um eld í bifreið í Hafnarfirði, sem var alelda þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Eldurinn var slökktur en verið að rannsaka eldsupptök.

Annars staðar var ölvuðum og ógnandi manni vísað á brott af veitingastað í verslunarmiðstöð en sá hélt því fram að hann mætti panta sér veigar án þess að greiða fyrir þær. Þá var einnig tilkynnt um nytjastuld á ökutæki en það fannst síðar um nóttina, ásamt grunaða, sem reyndist undir áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×