Sport

Bað um að grátandi krakka yrði vísað af vellinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grátandi barn truflaði einbeitingu Emmu Raducanu á Cincinatti Open.
Grátandi barn truflaði einbeitingu Emmu Raducanu á Cincinatti Open. epa/MARK LYONS

Tennisstjarnan Emma Raducanu bað um að grátandi barni yrði vísað af vellinum í leik hennar gegn Arynu Sabalenku á Cincinatti Open.

Í úrslitasettinu óskaði Raducanu eftir því við dómara leiksins að farið yrði með barn sem grét hátt af vellinum. Hún sagði að barnið hefði grátið í tíu mínútur og það truflaði einbeitingu hennar.

„Þetta er krakki. Viltu að ég hendi krakkanum út af vellinum,“ spurði dómarinn Raducanu sem svaraði játandi. Hann átti því engra annarra kosta völ en að verða við bón hennar og vísa barninu burt.

Það dugði þó ekki til fyrir Raducanu sem tapaði viðureigninni fyrir Sabalenku sem er efst á heimslistanum í tennis.

Raducanu hefur skipt ört um þjálfara undanfarin misseri en sá nýjasti, Francisco Roig, var virkur á hliðarlínunni í leiknum gegn Sabalenku.

Hin 22 ára Raducanu vann Opna bandaríska meistaramótið fyrir fjórum árum en hefur ekki unnið risamót síðan þá. Hún er í 39. sæti heimslistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×