Íslenski boltinn

„Það er á­stæða fyrir því að ég vildi snúa aftur “

Ágúst Orri Arnarson skrifar
_DSF5364

Eftir erfitt ár í Kanada var Shaina Ashouri ekki lengi að stimpla sig inn í endurkomunni til Íslands og skoraði opnunarmarkið í 2-1 sigri Víkings gegn Stjörnunni í kvöld.

„Mjög gott að ná sigri strax í fyrsta leik, hér á heimavelli, þetta skiptir mig meira máli en nokkuð annað“ sagði hún svo og dró ekkert úr gleðinni.

Shaina sneri aftur til Víkings í sumarglugganum eftir að hafa verið hjá Toronto í kanadísku deildinni síðasta árið

„Það er erfitt að koma því í orð, en þegar ég fór… Það er ástæða fyrir því að ég vildi snúa aftur“ sagði hún og virtist eiga erfitt með að tala um árið sem er að baki í Kanada.

En Shaina er mætt aftur í Víkina og líður að eigin sögn eins og hún sé komin heim.

Tímabilið hefur verið erfitt hjá Víkingi en hún kemur til með að styrkja hópinn heilmikið og trúir því að liðið geti lyft sér upp úr fallsæti.

„Þetta var fyrsta skrefið í rétta átt og við munum halda áfram að stíga þessi skref, leik fyrir leik. Okkar markmið eru skýr og tímabilið er langt frá því að vera búið.“

Hjá Víkingi hittir hún ekki sama þjálfara og var síðast þegar hún spilaði fyrir liðið, en Shainu líst vel á Einar Guðnason.

„Þetta hefur verið frábært að fá hann inn, mjög góður andi í hópnum og stelpurnar trúa á verkefnið. Við erum með gott plan í gangi, sem þjálfararnir hafa stillt upp og sjá um að útfæra. Þetta er allt á réttri leið“ sagði Shaina, sem lofaði svo að halda áfram að skora fyrir Víking.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×