Fótbolti

Styttist í að Orri Steinn verði ekki lengur stærsta sala FCK

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Var mikilvægur hlekkur í tvöföldu meistaraliði, valinn besti ungi leikmaðurinn og lék sína fyrstu A-landsleiki.
Var mikilvægur hlekkur í tvöföldu meistaraliði, valinn besti ungi leikmaðurinn og lék sína fyrstu A-landsleiki. Kristian Tuxen Ladegaard Berg/Getty Images

Landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson var stærsta sala í sögu FC Kaupmannahafnar en það styttist í að staðfest verði að það met hafi verið slegið.

Framherjinn Orri Steinn gekk í raðir Real Sociedad á Spáni á lokadegi félagaskiptagluggans síðasta sumar. Hann kostaði Sociedad sléttar 20 milljónir evra – 2,8 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi – og varð um leið dýrasta sala í sögu félagsins.

Metið áður átti Hákon Arnar Haraldsson en Lille keypti Skagamanninn á 15 milljónir evra sumarið 2023. Sú upphæð gat þó hækkað upp í 17 milljónir evra með árangurstengdum greiðslum.

Áfram heldur FCK að selja leikmenn dýrum dómum. Hinn 19 ára gamli Victor Froholdt er nú við það að verða dýrasta sala FCK sem og efstu deildar Danmerkur. Hinn síhlaupandi miðjumaður er á leið til Porto í Portúgal fyrir 22 milljónir evra – 3,1 milljarð íslenskra króna.

Froholdt var orðaður við Eintracht Frankfurt sem og önnur félög eftir magnaða frammistöðu á síðustu leiktíð þar sem FCK stóð uppi sem tvöfaldur meistari. Þá lék hann sína fyrstu A-landsleiki. Það var hins vegar snemma ljóst að FCK var ekki tilbúið að samþykkja neitt nema mettilboð í leikmanninn og því var sagt nei við Frankfurt þegar það bauð svipaða upphæð og Lille bauð í Hákon Arnar fyrir tveimur árum.

Porto er hins vegar tilbúið að opna veskið og styttist í að salan verði frágengin. Froholdt spilaði allan leikinn þegar FCK hóf tímabilið á 3-2 útisigri en hann var ekki á æfingu liðsins í dag, mánudag, og er ekki í leikmannahópnum þegar FCK mætir FC Drita í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×