Innlent

Þinglokasamningur í höfn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, segir þinglokasamning vera í höfn.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, segir þinglokasamning vera í höfn. Vísir/Ívar Fannar

Samið hefur verið um þinglok Alþingis mánudaginn 14. júlí en þingið hefur tafist fram á sumar vegna djúpstæðs ágreinings um afgreiðslu veiðigjaldafrumvarpsins. Veiðigjaldafrumvarpið mun fara í gegn auk frumvarps um jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, staðfesti þinglokin við fréttastofu nú fyrir skömmu. Hún tjáði sig ekki frekar um þinglokin eða dagskrá þingfundar á mánudag. 

Rætt var við Bergþór Ólason, þingflokksformann Miðflokksins, og Ragnar Þór Ingólfsson, þingflokksformann Flokks fólksins, um þinglokasamninginn í beinni útsendingu kvöldfrétta Sýnar. 

Þar kom fram að forseti Alþingis hefði lagt fram tillögu um þinglokasamning sem þingflokksformenn hreyfðu ekki mótmælum við. Fjögur mál eru römmuð inn í þinglokasamningnum: veiðigjaldafrumvarpið, frumvarp um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, hin lögbundna fjármálaætlun og loks veitingar ríkisborgararéttar.

Þingfundi Alþingis var slitið 18:30 í dag en honum var frestað alls sjö sinnum yfir daginn og ræddu þingmenn aðeins stuttlega í pontu.

Dagurinn í gær var viðburðaríkur en Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, beitti þá 71. grein þingskapalaganna í fyrsta skipti í áratugi. Með samþykki meirihlutans var því annari umræðu um frumvarpið lokið. Frumvarpið fór fyrir atvinnuveganefnd í gær og til stóð að greiða atkvæði um frumvarpið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×