Körfubolti

Taka einn efni­legasta leik­manninn frá Ís­lands­meisturum Hauka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Inga Lea Ingadóttir með Einari Jónssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.
Inga Lea Ingadóttir með Einari Jónssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur. Njarðvík

Körfuboltakonan Inga Lea Ingadóttir hefur ákveðið að yfirgefa Íslandsmeistara Hauka og semja í staðinn við silfurlið Njarðvíkur fyrir komandi tímabil í Bónus deild kvenna í körfubolta.

Inga Lea er ein efnilegasta körfuboltakona landsins og lykilmaður í íslenska sextán ára landsliðinu.

Inga Lea er fædd árið 2009 og er sextán ára síðan í apríl. Hún er 185 sentímetra framherji sem tók þátt í 29 leikjum með meistaraflokki Hauka á síðustu leiktíð.

Inga var í hópnum en fékk ekki mikið að spila enda enn mjög ung. Hún spilaði samtals í nítján mínútur í úrslitakeppninni og var með 5 stig og 6 fráköst á þeim.

Inga fylgdi því eftir með flottri frammistöðu með sextán ára landsliðinu á Norðurlandamótinu á dögunum. Hún var valin í úrvalslið mótsins eftir að hafa verið með 15,8 stig, 12,8 fráköst og 4,0 varin skot að meðaltali á leik.

„Inga Lea er á yngsta ári í 12. flokki en samt með töluverða reynslu miðað við aldur. Við hlökkum mikið til að vinna með henni en hún mun koma inn í meistaraflokkshópinn okkar en það bíða frekari verkefni. Við munum tefla fram B liði í 1.deild næsta vetur og þar skapast mikilvægt verkefni fyrir unga leikmenn í félaginu – verkefni sem við sjáum sem brú úr yngri flokkum upp í meistaraflokkinn þannig að það verða næg verkefni fyrir okkar ungu og efnilegu leikmenn á næstu misserum,“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Njarðvík, á heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×