Lífið

Stefán Karl hefði orðið fimm­tugur í dag

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Stefán Karl Stefánsson féll frá aðeins 43 ára að aldri. Fjölmargir sem þekktu leikarann minnast hans í dag en hann hefði orðið fimmtugur hefði hann lifað.
Stefán Karl Stefánsson féll frá aðeins 43 ára að aldri. Fjölmargir sem þekktu leikarann minnast hans í dag en hann hefði orðið fimmtugur hefði hann lifað.

Leikarinn Stefán Karl Stefánsson hefði orðið fimmtíu ára gamall í dag ef hann hefði ekki fallið frá árið 2018 eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein. Fjölskylda Stefáns hyggst minnast hans í dag heima hjá móður hans.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og ekkja Stefáns, greinir frá þessu í færslu á Facebook og minnist um leið leikarans.

„Stefán vissi að hann myndi fara ungur og kannski skýrir það hvað honum lá á að smakka á því, lífinu! Hann var óragur við að leggja á brattann, mætti mótlæti af æðruleysi þar til hann átti enga undankomuleið. Dauðastríð Stefáns reyndist okkur öllum erfitt því það er kvöl að sjá svo ungan mann svo ósáttan við örlög sín,“ skrifar Steinunn í færslunni.

Steinunn segir börn þeirra Stefáns hafa erft í ríkum mæli allt það besta sem Stefán bar með sér:  kátínuna, atorkusemina og áræðnina. 

„Dauðinn er nauðaómerkilegur en sú orka og það hreyfiafl sem býr í hverjum og einum lifir eilíflega. Bókstaflega í afkomendum þeirra sem fara, en ekki síður í samfélögum og sálum þeirra sem fengu að kynnast og þekkja þá sem voru hér aðeins stutta stund,“ skrifar hún.

Þá segist hún hafa lært eitt: „Lífið er skóli þar sem við veljum námsgreinarnar. Það sem virðist eftirsóknarvert er ekki endilega það sem mesta velsæld færir. Veljum námsgreinarnar af kostgæfni.“

„Blessuð sé minning Stefáns Karls.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.