Fótbolti

Valdi Ís­land fram yfir Noreg: „Ég er meiri Ís­lendingur“

Aron Guðmundsson skrifar
Amanda Jacobsen Andradóttir er mætt á sitt annað stórmót fyrir Íslands hönd. Þessi gæðamikli leikmaður hefur verið að glíma við sinn skerf af meiðslum og á einum tímapunkti óttaðist hún að EM draumurinn í ár yrði ekki að veruleika fyrir sig.
Amanda Jacobsen Andradóttir er mætt á sitt annað stórmót fyrir Íslands hönd. Þessi gæðamikli leikmaður hefur verið að glíma við sinn skerf af meiðslum og á einum tímapunkti óttaðist hún að EM draumurinn í ár yrði ekki að veruleika fyrir sig. Vísir/Anton Brink

Amanda Andra­dóttir, lands­liðs­kona Ís­lands í fót­bolta, segir það skemmti­lega til­hugsun að spila mögu­lega á móti Noregi í kvöld á EM í fót­bolta. Amanda á bæði rætur að rekja til Ís­lands sem og Noregs og valdi ís­lenska lands­liðið fram yfir það norska á sínum tíma.

Amanda, sem var í fyrsta sinn valin í lands­lið Ís­lands árið 2021, hefur áður sagt frá því hvernig sam­tal við Þor­stein Halldórs­son, lands­liðsþjálfara hafi hjálpað til við að taka þá ákvörðun að spila fyrir Ís­land en ekki Noreg.

„Ég talaði náttúru­lega við hann og tók eigin­lega endan­lega ákvörðun eftir að hafa verið búin að tala við hann. Þetta var fínt sam­tal, hann út­skýrði fyrir mér hvað hann væri að hugsa og þá tók ég endan­lega ákvörðun,“ sagði Amanda í sam­tali við Vísi á sínum tíma.

For­eldrar Amöndu eru Andri Sigþórs­son og hin norska Anna Ang­vik Jacob­sen. Amanda fæddist í Noregi þar sem Andri, sem er fyrr­verandi lands­liðs­maður Ís­lands, lauk sínum ferli en hún flutti fimm ára gömul til Ís­lands og lék með yngri flokkum Víkings og Vals.

Hún er á sínu öðru stór­móti með Ís­landi en hefur ekki komið við sögu í tveimur leikjum liðsins til þessa. Hana hlýtur hins vegar að kitla all­veru­lega fyrir því að geta mögu­lega komið við sögu gegn Noregi í kvöld.

Klippa: Meiri Íslendingur en Norðmaður

„Það er auðvitað mjög skemmti­legt að spila á móti Noregi, kannski sér­stak­lega fyrir fjöl­skylduna mína bæði á Ís­landi og í Noregi,“ sagði Amanda í viðtali við Vísi í að­draganda fyrsta leik Ís­lands á EM. „Ég er meiri Ís­lendingur.“

Þú náttúru­lega valdir að spila fyrir Ís­land á sínum tíma, séð væntan­lega ekki eftir þeirri ákvörðun eða hvað?

„Nei alls ekki. Þetta var mjög náttúru­leg ákvörðun fyrir mig að taka á sínum tíma. Ég hafði alltaf spilað með Ís­landi og aldrei spurning í mínum huga hvað ég ætti að velja.“

Leikur Íslands og Noregs á EM í Sviss hefst klukkan sjö í kvöld og verður lýst í beinni textalýsingu hér á Vísi. Alla umfjöllun íþróttadeildar Vísis og Sýnar um EM má finna með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan: 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×