Innlent

Bolta­leikir bannaðir á skóla­lóðinni eftir klukkan tíu

Agnar Már Másson skrifar
Af lóð Hlíðaskóla, þar sem boltaleikir eru bannaðir eftir klukkan tíu.
Af lóð Hlíðaskóla, þar sem boltaleikir eru bannaðir eftir klukkan tíu. Facebook/Jónas Már Torfason

Bannað er að leika sér með bolta á sparkvelli Hlíðaskóla eftir klukkan tíu, samkvæmt skilti sem búið er að koma fyrir á skólalóðinni. Útivistartími unglinga nær þó til miðnættis.

„Boltaleikir bannaðir eftir kl. 22.00“ eru skilaboðin sem blasa við á skilti á skólalóð Hlíðaskóla en Jónas Már Torfason lögfræðingur vekur athygli á þessu á Facebook.

„Það má vera ansi þreytandi fyrir ungmenni landsins að fá endalausa útreið í opinberri umræðu; hvað þau séu ósjálfbjarga, léleg til mennta, ofbeldisfull og grilluð af skjátíma. Samtímis eru þeim sífellt settar skorður og aðgengi þeirra að uppbyggilegri tómstund, sem ræktar sjálfstæði þeirra, sjálfsöryggi og þrek, takmarkað. Það er ekki nema von að þau spyrji af einlægni hvar þau megi eiginlega vera?“

Hann segist ekki minnast þess að hafa séð slíkt skilti í sinni æsku. Hann bendir einnig á að á sumrin sé útivistartími 13 til 16 ára barna til miðnættis. 

„Í þessu felast skilaboð sem erfitt er að skilja öðruvísi en „farið eitthvert annað“. Þetta eru kolröng skilaboð til að senda. Við viljum að ungmenni séu úti í fótbolta eða í kvöldsundi, þar sem þau njóta öruggrar og uppbyggilegrar samveru hvors annars án óþarfa afskipta fullorðinna og truflana tækninnar. Við viljum að þau geri það sem allra, allra mest, ekki bara til klukkan tíu. Ef því fylgir einhvern minniháttar hljóðtruflun að heyra hlátursköll æskunnar við heilbrigðan leik verður bara að hafa það. Hér þarf að gera miklu betur.“

Færsla Jónasar, sem er samfylkingarmaður og sonur Ölmu Möller heilbrigðisráðherra, hefur vakið nokkur viðbrögð. Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis og þingkona Samfylkingarinnar, tekur undir færsluna í ummælum. Sindri S. Kristjánsson, varaþingmaður úr sama flokki, tekur einnig undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×