Fótbolti

Svein­dís hrósaði stjörnu Sviss: „Trylltist allt þegar hún kom inn á“

Sindri Sverrisson skrifar
Alisha Lehmann og Sveindís Jane Jónsdóttir gætu mæst í Bern í kvöld en það verður þó að segjast að Sveindís er í mikið stærra hlutverki hjá Íslandi en Lehmann hjá Sviss.
Alisha Lehmann og Sveindís Jane Jónsdóttir gætu mæst í Bern í kvöld en það verður þó að segjast að Sveindís er í mikið stærra hlutverki hjá Íslandi en Lehmann hjá Sviss. Samsett/Getty

Stærsta stjarna svissneska liðsins, sem Ísland mætir á EM í kvöld, er alls ekki besti leikmaður liðsins. Alisha Lehmann er með 17 milljón fylgjendur á Instagram, langflesta af öllum fótboltakonum í heiminum. Sveindís Jane Jónsdóttir segir það gefa leiknum aukakrydd að Sviss sé með Lehmann innanborðs.

Lehmann, sem er 26 ára gömul, hefur verið leikmaður Juventus síðustu misseri en var áður hjá Aston Villa og West Ham á Englandi. Þá á hún að baki fjölda landsleikja en er þó ekki ein af þeim sem þjálfarinn Pia Sundhage treystir helst á.

Sveindís er sjálf virk á samfélagsmiðlum og segir það vel gert hjá Lehmann hve miklum vinsældum hún hafi náð á Instagram.

„Ég held að hún hafi búið til sinn fylgjendahóp bara sjálf. Fínasti leikmaður en ég hef ekki séð hana spila mikið. Hún er alla vega í þessu landsliði og hefur örugglega unnið fyrir því sjálf,“ sagði Sveindís aðspurð um Lehmann í hótelgarði landsliðsins um helgina, eins og sjá má hér að neðan.

Klippa: Sveindís hrósaði stjörnu Sviss

„Ég veit ekki hvort hún spili á móti okkur en ég held að það yrði bara skemmtilegt. Stuðningsfólk Sviss yrði mjög ánægt með að fá hana inn á. Við spiluðum við þær fyrir tveimur árum og það trylltist allt þegar hún kom inn á. Ég þekki hana voða lítið en hef heyrt góða hluti um hana og hún er flott manneskja. Flott hjá henni að hafa búið til svona góðan og stóran fylgjendahóp,“ sagði Sveindís.

Kemur fyrir að ljót skilaboð berist

Lehmann hefur sjálf talað um það að allri athyglinni geti fylgt leiðindi og ljót skilaboð en Sveindís tengir lítið við það:

„Ég held að hún sé með svona 17 milljón followers þannig að það er kannski smámunur þarna á milli,“ sagði Sveindís og hló, áður en hún bætti við: „Ég alla vega tengi lítið við það. En það getur alveg komið fyrir að það séu einhverjir með ljót skilaboð sem þeir senda á mann en maður á ekkert að vera að pæla í því. Þau eru oftast undir leyndum notendanöfnum og eitthvað sem maður ætti ekki að vera að spá neitt í.“


Tengdar fréttir

„Vitum hvað það var sem að klikkaði“

„Við þekkjum vel styrkleika þessa liðs og hvað við þurfum að gera til að ná okkur í stig,“ segir Sandra María Jessen um hálfgerðan úrslitaleik Íslands við Sviss á EM í fótbolta á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×