Staðan var jöfn í hálfleik 18-18 en í seinni hálfleik setti Ísland fótinn á bensíngjöfina og leit ekki í baksýnisspegilinn. Ísland skoraði fjögur mörk í röð og tók afgerandi forystu sem hélst alveg til enda. Lokatölur í leiknum 32-38 fyrir Íslandi.
Elmar Erlingsson var langmarkahæstur hjá Íslandi, líkt og í öðrum leikjum mótsins, með ellefu mörk úr fjórtán skotum á pólska markið. Hornamaðurinn Össur Haraldsson fylgdi honum eftir með átta mörk. Þrátt fyrir það var hinn pólski Piotr Mielczarski valinn maður leiksins. Nánari tölfræði og leikmannahóp Íslands má finna hér.
Sigurinn fleytir Íslandi áfram í úrslitaleik um Forsetabikarinn, sem efsta liðið úr neðri hluta mótsins vinnur. Leikurinn verður gegn sigurliðinu í leik Alsír og Serbíu, og verður í beinu streymi á Vísi á morgun.
Leikur Íslands gegn Póllandi var í beinu streymi á YouTube síðu alþjóðahandboltasambandsins og má sjá hér fyrir neðan.