Gonzalo Garcia skoraði fyrsta mark leiksins á 34. mínútu leiksins. Real Madrid fór í skyndisókn þar sem Vinicius Jr gerði vel, hann gaf svo á Rodrygo á kantinum sem renndi boltanum á Garcia sem kláraði vel.
Það liðu aðeins sex mínútur þangað til Raul Asencio reif Marcos Leonardo niður í teignum og dómari leiksins dæmdi víti.
Ruben Neves fyrrum leikmaður Wolves fór á punktinn og var ekki í neinum vandræðum með spyrnuna. Leikurinn því jafn 1-1.
Þannig var staðan alveg fram að 89. mínútu þegar Real Madrid fengu víti. Federico Valverde tók spyrnuna en Bono markvörður Al-Hilal varði frá honum.
Jafntefli því úrslitin, en þetta var fyrsti leikur Xabi Alonso sem þjálfari Real Madrid. Trent Alexander-Arnold spilaði einnig sinn fyrsta leik fyrir Real en hann var tekinn af velli eftir 65 mínútur.
Þetta var einnig fyrsti leikur Simone Inzaghi sem þjálfari Al-Hilal, en hann var þjálfari Inter Milan sem tapaði fyrir PSG í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 31. maí síðastliðinn.