Dregið verður í umspilið eftir tvo daga, föstudaginn 6. júní, þar verða alls átta lið í pottinum sem munu spila tveggja leikja einvígi upp á sæti í A-deild þegar Þjóðadeildin hefst aftur í febrúar á næsta ári. Umspilsleikirnir verða spilaðir í október.
Ísland, Austurríki, Belgía og Danmörk enduðu í þriðja sæti í sínum A-riðli og munu dragast á móti Írlandi, Norður-Írlandi, Finnlandi eða Tékklandi, sem enduðu í öðru sæti í sínum B-riðli.
Algjört lykilatriði er fyrir Ísland að halda sæti sínu í A-deildinni, því fylgir aukið fjármagn, leikir gegn betri andstæðingum og leiðin á HM í Brasilíu verður mun greiðari. Ef Ísland heldur sæti sínu í A-deild sleppur liðið við að mæta öðrum liðum úr A-deildinni í umspili upp á HM-sæti.
Áður en að umspilsleikjum Þjóðadeildarinnar kemur er Ísland á leiðinni á EM í Sviss. Stelpurnar okkar spila æfingaleik við Serbíu áður en mótið hefst 2. júlí. Ísland er í riðli með Frakklandi, Finnlandi og Sviss.