„Það eru margir þingmenn sem vilja að við beitum Rússland eins kröftugum refsiaðgerðum og við getum,“ sagði Johnson við blaðamenn í gær. „Ég er stuðningsmaður þess.“
Lindsey Graham og Richard Blumenthal, öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins, hafa samið frumvarp sem myndi herða refsiaðgerðir gegn Rússlandi til muna, verði það að lögum.
Samkvæmt frumvarpinu myndu Bandaríkin setja fimm hundruð prósenta toll á vörur frá öllum ríkjum sem kaupa olíu og/gas frá Rússlandi en það er helsta tekjulind rússneska ríkisins.
Graham segir 82 aðra þingmenn hafa lýst yfir stuðningi við frumvarpið og sagði hann í Úkraínu í síðustu viku að það yrði mögulega lagt fyrir öldungadeildina í þessari viku. Með miklum stuðningi í báðum deildum þingsins væri mögulegt að gera frumvarpið að lögum án þess að Trump veiti því blessun sína.
Graham skrifaði í morgun færslu á X um ummæli Dmitrís Medvedev, fyrrverandi forseta Rússlands, fyrrverandi forsætisráðherra og sitjandi varaformanns öryggisráðs Rússlands, um að friðarviðræðunum við Úkraínumenn væri ekki ætlað að koma á friði. Þeim væri þess í stað ætlað að hjálpa Rússum að sigra Úkraínu.
Sjá einnig: Með sömu óásættanlegu kröfurnar
Þakkaði Graham Medvedev fyrir að gera afstöðu Rússa skýra.
Congratulations to Mr. Medvedev for a rare moment of honesty coming from the Russian propaganda machine.
— Lindsey Graham (@LindseyGrahamSC) June 3, 2025
I appreciate you making it clear to the world that Putin and Russia are not remotely interested in peace. https://t.co/KtlHCou8tp
Hefur oft sagst íhuga aðgerðir
Trump gaf nýverið til kynna að hann hafi staðið í vegi hertra refsiaðgerða gegn Rússlandi vegna innrásarinnar. Þá sagði hann Pútín vera að leika sér að eldinum vegna ítrekaðra árása Rússa á borgi og bæi Úkraínu.
„Það sem Vladimír Pútín veit ekki er að ef ekki væri fyrir mig, væru allskonar slæmir hlutir að gerast í Rússlandi og ég meina VIRKILEGA SLÆMIR,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðil sinn í síðasta mánuði.
Sjá einnig: „Hann er að leika sér að eldinum!“
Forsetinn bandaríski hefur ítrekað gefið til kynna að hann sé að skoða að herða refsiaðgerðir gegn Rússlandi en það hefur þó aldrei gerst. Þess í stað hefur hann gefið til kynna Bandaríkjamenn muni ganga frá borðinu, ef svo má segja, og jafnvel hætta stuðningi við Úkraínumenn.
Slíkt yrði mikill sigur fyrir Pútín og Rússa og myndi gera Úkraínumönnum varnirnar erfiðari.