Chelsea var marki undir í hálfleik en sneri dæminu sér í vil í síðari hálfleik með fjórum mörkum, lokatölur í Póllandi 4-1 og bláliðar Sambandsdeildarmeistarar árið 2025.
„Hamingjan eftir sigurinn á Nottingham Forest um helgina var enn til staðar og aðeins of mikil af því maður reynir allt tímabilið að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu,“ sagði Maresca en lærisveinar hans tryggðu sér sæti í deild þeirra bestu í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar.
„Skilaboðin eftir Forest leikinn voru á þá leið að ef við ætlum að láta taka okkur alvarlega sem lið þá skiptir ekki máli hvað er búið og gert, við urðum að vinna úrslitaleikinn. En hamingjan og þreytan, af því við fengum 48 klukkustundum minna í undirbúning en Betis. Þeir spiluðu á föstudegi en við gríðarlega mikilvægan leik á sunnudegi svo ég bjóst að einhverju leyti við þessu.“
„Við spiluðum mun betur í síðari hálfleik,“ sagði þjálfarinn svo áður en hann sagði að markmið næsta tímabils væru að reyna aftur.