Innlent

Óvissustig vegna ferjuflugvélar frá Græn­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
TF-SIF var við það að fara á loft þegar samband náðist við flugmanninn.
TF-SIF var við það að fara á loft þegar samband náðist við flugmanninn. Vísir/Friðrik

Óvissustigi var lýst yfir af stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á þriðja tímanum þegar ekki náðist samband við flugmann eins hreyfils ferjuflugvélar sem verið var að fljúga frá Narsarsuaq á Grænlandi til Keflavíkur. Engan sakaði.

Þegar flugmaðurinn, sem var einn um borð, hafði ekki tilkynnt um ferðir sínir eins og búið var að gera ráð fyrir,  höfðu starfsmenn Flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík samband við Landhelgisgæsluna. Flugvélin sást ekki á ratsjám og svaraði flugmaðurinn ekki kalli.

Í yfirlýsingu frá LHG segir að dönsku herstjórninni á Grænlandi hafi verið tilkynnt um málið og eftirlitsflugvél frá danska flughernum hafi verið send af stað. Áhöfnin á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, var einnig kölluð út.

Þegar áhöfnin var við það að fara í loftið náðist loks samband við flugmanninn og sáust merki frá henni í kerfum stjórnstöðvar Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli. 

Einnig segir í yfirlýsingunni að umfang málsins hafi verið töluvert og það hafi reynt á samvinnu stjórnstöðvar LHG í Skógarhlíð, dönsku herstjórnarinnar, Flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík og stjórnstöðvar NATO á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×