Viðskipti innlent

Kastrup og Jón Mýr­dal hafa skilið skiptum

Jakob Bjarnar skrifar
Jón Mýrdal gaf út tilkynningu nú rétt í þessu þar sem hann sagðist ekki tengjast veitingastaðnum Kastrup lengur. 
Jón Mýrdal gaf út tilkynningu nú rétt í þessu þar sem hann sagðist ekki tengjast veitingastaðnum Kastrup lengur.  vísir/anton brink

Jón Mýrdal, sem hefur verið vert á veitingastaðnum Kastrup við Hverfisgötu, hefur gefist upp á samningum við skattinn og leigusala og skilið skiptum við staðinn. 

Jón sagði kokhraustur í samtali við Vísi, þegar greint var frá því á dögunum að staðurinn hafi verið innsiglaður af skattinum og gestir reknir frá diskunum, að hann væri á leið með skjalatösku til skattsins til að gera þetta mál upp. Þetta hafi verið leið mistök en staðnum var lokað föstudaginn 2. maí. Nú hefur komið á daginn að dýpra var á vandamálinu en svo. Staðurinn er enn lokaður og sér ekki fyrir endann á því.

„Kæru vinir það er því miður ljóst að ég kem ekki lengur til með að hafa aðkomu að Kastrup. Það náðust ekki samningar við skattinn né leigusala,“ segir Jón nú í tilkynningu á Facebook.

Jón lýsir því að síðustu vikur hafi verið erfiðar en hann sé þó stoltur af því að hafa byggt upp staðinn, í fyrstu í tjaldi við Klapparstíg ásamt Stefáni Melsted kokki, sem svo breyttist í þennan vinsæla veitingastað við Hverfisgötu.

Og Jón þakkar sérstaklega fastakúnnum staðarins sem komu reglulega en eins og áður sagði var staðurinn ákaflega vinsæll.

„Nú þarf að ganga frá lausum endum og hugsa um framtíðina,“ segir Jón sem virðist hvergi nærri af baki dottinn þegar veitingarekstur er annars vegar:

„Ég veit hverju ég er góður í sem er stuð og stemming og næstu verkefni verða tengd því. Í framtíðinni mun bókhald og tölvupóstar vera gert af fagmönnum,“ segir Jón sem tekur fram að hann muni ekki svara spurningum frá blaðamönnum um þessar lyktir máls. 

Jón var einn skráður eigandi Kastrup í gegnum fyrirtæki sitt K151515 ehf. 

Jón hefur reyndar ekki svarað blaðamönnum nú um skeið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×