Hlaupið heitir Lierskogen 6 timers og virkar þannig að hlaupinn er 655 metra langur hringur eins oft og keppendur geta á sex klukkutímum. Hólmfríður segir að þannig myndist oft góð stemning í hlaupinu þó að keppendur séu á mismunandi hraða því allir séu samtímis í brautinni.
Engin var þó nálægt því að hlaupa á sama hraða og 49 ára gamla amman Hólmfríður en hún hljóp alls tæpa 77 kílómetra og var því að meðaltali 4 mínútur og 41 sekúndu með hvern kílómetra. Hljóp sem sagt að meðaltali á 12,8 km/klst í sex klukkustundir.
„Mér leið mjög vel í hlaupinu og náði að halda góðum hraða í fimm tíma. Það var lagt upp með að hlauparar fengju líka staðfestan maraþontíma og maraþonið hljóp ég á 3:12,“ sagði Hólmfríður í samtali við Vísi.
„Síðasta klukkutímann voru fæturnir farnir að stífna og þá hægði aðeins á,“ bætti hún við.
Sannarlega merkilegur árangur hjá Hólmfríði sem búið hefur í Noregi síðustu þrettán ár og starfar sem hjúkrunarfræðingur í smábænum Valen í Kvinnherad, um 100 kílómetra sunnan við Bergen. Þar æfir hún hlaup með góðum hlaupa- og þríþrautarhópi á svæðinu.
„Ég hef hlaupið þó nokkur maraþon síðustu ár og nokkur ultrahlaup,“ segir Hólmfríður og heldur áfram.
„Utanvegahlaup henta mér ekki, ég er hræðilegur klaufi í öllu fjallabrölti, en ég finn mig vel í lengri götuhlaupum eða brautarhlaupum. Það er þó nokkur hefð fyrir 6, 12 og 24 tíma hlaupum hér í Noregi. Mér finnst það mjög spennandi hlaup, þar sem hver og einn hlaupari stýrir sínu hlaupi og fólk keppist við að ná ákveðinni vegalengd.“