Erlent

Eyði­legging í íbúða­hverfi í San Diego eftir að lítil flug­vél hrapaði

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn skoða hús og bíl sem kviknaði í eftir að lítil flugvéll hrapaði í úthverfi San Diego í nótt.
Lögreglumenn skoða hús og bíl sem kviknaði í eftir að lítil flugvéll hrapaði í úthverfi San Diego í nótt. AP/Gregory Bull

Lítil flugvél brotlenti í íbúðahverfi í San Diego í Kaliforníu í Bandaríkjunum með þeim afleiðingum að eldur kviknaði í á öðrum tug húsa. Ekki er ljóst enn hvort einhver hafi farist.

Murphy Canyon-hverfið var rýmt eftir að vélin, sem getur borið sex til átta manns, hrapaði þar og rakst á nokkur hús um klukkan 3:45 í nótt að staðartíma. Eldur kviknaði í um fimmtán húsum auk bifreiða, að sögn AP-fréttastofunnar. Hún hefur jafnframt eftir slökkviliðsmanni að flugvélaeldsneyti og braki hafi dreifst víða um hverfið.

Flugvélin var af gerðinni Cessna 550. Bandaríska flugmálastofnunin segir ekki ljóst hversu margir voru um borð. Hún hrapaði nærri Montgomery-Gibbs-flugvellinum í San Diego. Ekki er vitað um manntjón að svo stöddu.

Flugvéllinn olli mikilli eyðileggingu í Murphy Canyon-hverfinu í San Diego.AP/Gregory Bull

Christopher Moore, íbúi í næstu götu við þá þar sem flugvélin kom niður, segist hafa vaknað við háan hvell og séð reyk þegar hann leit út um gluggann. Þau eiginkona hans hafi gripið börn sín tvö og flúið heimilið. Á leið út úr hverfinu hafi þau séð alelda bíl.

„Þetta var sannarlega hryllilegt en stundum verður maður að setja höfuðið undir sig og komist í öruggt skjól,“ segir Moore við AP.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×