Það eru ekki allir sem geta státað sig af því að hafa farið á hæsta tind Íslands Hvannadalshnúk en það geta þær fjórtán ára gamla Katla María, tólf ára gamla Snædís og níu ára gamla Tinna gert. Þær fóru upp á tindinn á fjallaskíðum í fylgd foreldra sinna í síðustu viku.

Stelpurnar segjast eðli málsins samkvæmt vera hreyknar af afrekinu enda eru þær líklega meðal yngstu Íslendinganna sem það hafa gert.
„Þetta var mjög gaman. Alveg æðislegt,“ segja stelpurnar og bætir ein því við að hún sé afar stolt af sér. Toppurinn er 2.111 metra hár og þarf að fara hluta leiðarinnar í línu upp að toppnum og varast þar sprungur í jökli.

Hvernig fannst ykkur það að fara í línuna og sjá sprungur og vera á þessu svæði?
„Sko það þurfti að vera alveg smá bil á mlli okkar þannig maður gat ekki talað eins mikið en við vorum með tónlist þannig þetta var bara allt í lagi.“

Voruð þið eitthvað skelkaðar?
„Sko við sáum nokkrar sprungur og þurftum að fara yfir þrjár sem við sáum allavega og flestar sprungurnar voru eiginlega fullar af snjó þannig þær voru ekkert eitthvað rosa stórar.“
Þannig þið voruð ekkert smeykar?
„Nei nei. Þið voruð bara að hafa gaman? Jááááá.“

Stelpurnar segja að þær hafi verið í góðu skapi alla ferðina og bara örlítið þreyttar. Skemmtilegast fannst stelpunum svo að renna sér niður eftir að hafa notið útsýnisins af hæsta tindi landsins þar sem þær tóku nóg af myndum og gæddu sér á nesti.

Hvernig var að renna sér niður, voruð þið fljótar niður?
„Við vorum svona tvo tíma niður. Það var geggjað færi. Þannig að veðrið, geggjað færi, geggjað veður? Já það var æðislegt, tuttugu gráður næstum því allan tímann.“
