Mesti hiti sem mælst hefur í maímánuði á Íslandi eru 25.6 stig á Vopnafirði 26. maí 1992. Í gær mældist mest 24.2 stig á Egilsstaðaflugvelli og 23.6 stig á Hallormsstað. Það má því vera ljóst að hitinn á landinu núna er með því mesta sem við getum búist við að fá í maí - sannkallaður sumarauki.
Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að við Færeyjar sé hæð sem stjórnar veðrinu hjá okkur um þessar mundir. Hæðin og lægðir suður af Hvarfi beini til okkar hlýju lofti. Þar sem hæðin sé nær okkur en lægðirnar sé þetta hlýja loft jafnframt nokkuð þurrt í grunninn, en taki þó í sig raka frá sjónum á leið sinni til okkar.
Áðurnefnd hæð á samkvæmt spám að sitja nærri kyrr við Færeyjar út vikuna og hitabylgjan heldur því áfram.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag og sunnudag:
Suðaustan 5-13 m/s suðvestanlands, annars hægari vindur. Víða léttskýjað, en sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 13 til 23 stig yfir daginn, hlýjast fyrir norðan, en svalara í þokunni.
Á mánudag og þriðjudag:
Hæg breytileg átt eða hafgola og bjartviðri, en líkur á þoku úti við sjóinn. Áfram hlýtt í veðri, einkum inn til landsins.
Á miðvikudag:
Sunnanátt, skýjað með köflum og dálítil væta vestanlands. Hiti 10 til 18 stig.