Körfubolti

Settu nýtt met í heppni og fá velja fyrstir

Sindri Sverrisson skrifar
Cooper Flagg er væntanlega á leiðinni til Dallas.
Cooper Flagg er væntanlega á leiðinni til Dallas. Getty/Lance King

Umdeildasta lið NBA-deildarinnar í vetur, Dallas Mavericks, hafði heldur betur heppnina með sér í gærkvöld þegar dregið var um valrétt í nýliðavali deildarinnar. Svo mikla að samfélagsmiðlar eru fullir af ásökunum um samsæri.

Eftir að hafa átt í miklum erfiðleikum með að sætta sig við þá ákvörðun stjórnenda Dallas að skipta út Luka Doncic til LA Lakers í vetur, þá höfðu stuðningsmenn Dallas ástæðu til að fagna í gærkvöld þegar félagið fékk fyrsta valrétt.

Það þýðir að Dallas getur í nýliðavalinu 24.-25. júní tryggt sér hinn eftirsótta Cooper Flagg úr Duke-háskólanum.

Dregið var um það hvernig röðun liða yrði í valinu og tekið með í myndina hvar þau enduðu leiktíðina. Því hafði Dallas aðeins 1,8% líkur á að fá fyrsta valrétt og voru tíu lið líklegri til að hreppa hann. Svona varð hins vegar niðurstaðan:

Samkvæmt ESPN er það met að lið hoppi upp um tíu sæti í lottóinu og hreppi fyrsta valrétt. Sú niðurstaða hefur kallað á ýmis viðbrögð á samfélagsmiðlum en flest þeirra snúast um að hér hljóti hreinlega að vera um fyrirfram ákveðna niðurstöðu að ræða.

„Ég er svo ánægður fyrir hönd stuðningsmanna Mavericks,“ sagði Rick Welts, framkvæmdastjóri Dallas Mavericks.

„Ég kom bara til Dallas 1. janúar. Þann 1. febrúar sprengdum við internetið [með því að skipta Doncic út]. Ég er bara heillaður af þeim djúpu tilfinningum og tengslum sem að stuðningsmenn hafa við liðið. Það sem gerðist í dag – ég gæti ekki hugsað mér betri dag fyrir Mavs stuðningsmenn. Þetta verður alveg einstakt,“ sagði Welts og viðurkenndi að ferilskráin hjá fyrrnefndum Cooper Flagg talaði sínu máli.

Flagg hefur verið talinn líklegastur til að verða valinn fyrstur frá því í ágúst 2023, þegar hann tilkynnti að hann hygðist útskrifast ári fyrr úr menntaskóla og fara í háskóla 17 ára.

Þrátt fyrir allar væntingarnar sem til hans voru gerðar hefur honum samt tekist að fara fram úr þeim á háskólaárunum, samkvæmt ESPN, og skorað 19,2 stig að meðaltali í leik, tekið 7,5 fráköst og gefið 4,2 stoðsendingar, og farið með lið Duke Blue Devils í Final Four.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×