Erlent

Sam­þykktu Trump-samninginn ein­róma

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundi Vólódímírs Selenskí og Donalds Trump í Hvíta húsinu í febrúar. Þar sauð upp úr milli forsetanna.
Frá fundi Vólódímírs Selenskí og Donalds Trump í Hvíta húsinu í febrúar. Þar sauð upp úr milli forsetanna. AP/ Mystyslav Chernov

Úkraínska þingið hefur samþykkt samning við Bandaríkin um nýtingu auðlinda í Úkraínu. Samningurinn felur í sér að Bandaríkjamenn muni fá aðgang að auðlindum í Úkraínu og taka þátt í uppbyggingu þar í landi og vonast Úkraínumenn til þess að samningurinn opni á frekari hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum.

Samkvæmt samningnum verður stofnaður fjárfestingarsjóður sem notaður verður til uppbyggingar í Úkraínu og munu Bandaríkjamenn geta sótt tekjur í hann. Reuters segir úkraínska þingmenn hafa lýst yfir áhyggjum af skorti á upplýsingum um það hvernig sjóðurinn yrði fjármagnaður og hvernig honum yrðu stjórnað.

Allir 338 þingmennirnir sem greiddu atkvæði samþykktu þó samninginn. Enginn greiddi atkvæði gegn því eða sat hjá.

Umfangsmiklar viðræður hafa átt sér stað milli ríkjanna en gerð samningsins hefur tekið langan tíma og reynt töluvert á samband ríkjanna. Bandaríkjamenn hafa margsinnis breytt kröfum sínum og þótt gagna allt of hart fram gegn Úkraínumönnum á köflum.

Frá námu í Úkraínu.AP/Efrem Lukatsky

Meðal annars hafa Bandaríkjamenn reynt að nota samninginn til að fá Úkraínumenn til að greiða fúlgur fjár fyrir þá hernaðaraðstoð sem þeir hafa þegar fengið frá Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Nýjum drögum frá Trump lýst sem ránstilraun

Síðan þá hefur samningurinn tekið nokkrum breytingum sem Úkraínumenn hafa sagt jákvæðar.

Yulia Svyrydenko, aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu, segir samninginn grunninn að áframhaldandi samskiptum við mikilvæga bandamenn. Öryggismál verði hönd í hönd við efnahagsmál.

Hún segir Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, hafa lagt mikla áherslu á að samkomulagið væri í hag Úkraínumanna og að sjóðnum yrði stýrt af báðum aðilum.

„Það er einmitt það sem við höfum tryggt. Samningurinn felur ekki í sér skuldaákvæði né skuldbindingu til fjárfestinga í frjálsa og fullvalda Úkraínu,“ skrifaði Svyrydenko á X.

Hún segir að Úkraínumenn muni áfram eiga auðlindir sínar og að verkefni sem sjóðurinn verði notaður til að styrkja verði lögð til af Úkraínumönnum. Einnig taki samningurinn tillit til mögulegrar inngöngu Úkraínu í Evrópusambandið í framtíðinni og skuldbindingar ríkisins á því sviði.

Hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum er Úkraínu gífurlega mikilvæg og þá sérstaklega þegar kemur að loftvarnarkerfum og flugskeytum í þau. Ráðamenn í Úkraínu segja mikla þörf á að bæta stöðu loftvarna landsins.


Tengdar fréttir

Gera úkraínsk ungmenni að sjálfsmorðssprengjumönnum

Útsendarar leyniþjónusta Rússlands hafa notað samfélagsmiðla til að fá unga Úkraínumenn til að gera sprengjuárásir í Úkraínu. Í einhverjum tilfellum hefur fólkið ekki vitað að það bæri sprengju og hefur þó óafvitandi verið gert að sjálfsmorðssprengjumönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×