Flutningsmenn frumvarpsins eru Þorsteinn Sæmundsson, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgrímur Sigmundsson.
Frumvarpið var einnig lagt fram síðasta þingvetur, en þetta er í áttunda skiptið sem það er lagt fram í einhverri mynd og er það nú lagt fram óbreytt frá síðasta þingvetri.
Í greinargerð frumvarpsins segir að lífaldur Íslendinga hafi hækkað frá setningu laganna árið 1996 og auk þess hafi heilsufar þjóðarinnar batnað þannig að menn séu hraustir lengur fram eftir ævi.
Sú breyting hafi verið gerð á lögum um almannatryggingar árið 2007 að nú sé hægt að hefja lífeyristöku á bilinu 65 ára til 80 ára aldurs.
„Breytingin gagnast ríkisstarfsmönnum ekki, hvort sem um er að ræða skipaða embættismenn eða ráðna starfsmenn, því að báðum hópum er gert að láta af störfum þegar 70 ára aldri er náð samkvæmt gildandi lögum.“
„Alkunna er að mikill auður liggur í reynslu og þekkingu starfsmanna sem unnið hafa sem sérfræðingar og embættismenn um langa hríð. Það er því bæði þeim og ríkiskerfinu til hagsbóta að almennir starfsmenn og embættismenn eigi kost á því að starfa lengur en til 70 ára aldurs ef þeir kjósa.“
Þorsteinn Sæmundsson var til viðtals um málið í Reykjavík síðdegis í dag.