Viðskipti innlent

Sólon lokað vegna gjald­þrots

Lovísa Arnardóttir skrifar
Sólon hefur verið rekinn sem skemmti- og/eða veitingastaður í húsnæðinu við Bankastræti 7a frá árinu 1992.
Sólon hefur verið rekinn sem skemmti- og/eða veitingastaður í húsnæðinu við Bankastræti 7a frá árinu 1992. Vísir/Anton Brink

Veitingahúsið Sólon er hætt starfsemi. Þórir Jóhannsson sem átti staðinn segir félagið sem hafi rekið veitingastaðinn hafa farið í gjaldþrot fyrir um tveimur mánuðum. Hann hafi reynt að halda starfseminni gangandi en ekki náð samkomulagi við húseigendur um framhald á rekstri í húsinu.

„Þá skilaði ég bara lyklunum. Þannig að Sólon er hættur starfsemi í þeirri mynd sem hann hefur verið síðustu ár,“ segir Þórir í samtali við fréttastofu.

Hann segir ekki eina ástæðu fyrir því að staðurinn hafi farið í þrot. Það sé þungur rekstur í veitingabransanum og svo hafi þau farið í breytingar fyrir tveimur árum sem hafi reynst dýrar. Fjallað var um þær í heimilis- og lífstílsþættinum Bætt um betur á Stöð 2.

„Það eru margar ástæður. Þetta var erfiður rekstur sem ekki gekk upp. Veitingarekstur á Íslandi í dag er þungur, launakostnaður, vaxtaumhverfi, aðfangakostnaður, Covid og fleira eru meðal þess sem drógu félagið í þrot. Eins urðu endurbætur og framkvæmdir sem ráðist var í töluvert dýrari en gert var ráð fyrir. Allt lagðist þetta á eitt og því var ekkert annað í stöðunni en að segja þetta gott,“ segir Þórir.

Búið er að loka veitingastaðnum Sólin og húseigendur að skoða næstu skref. Vísir/Anton Brink

Skemmti- og veitingastaðurinn Sólon hefur verið í rekinn í húsinu við Bankastræti 7a frá árinu 1992. Þórir keypti staðinn af þeim Jóni Sigurðssyni og Jóhönnu Hrefnudóttur árið 2021.

Hann segir ekki vitað hvað taki nú við í húsnæðinu en eigendur fasteignarinnar séu að skoða það og hann að tæma það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×