Erlent

Lokuðu flug­völlum í Moskvu vegna dróna

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá æfingu flugmanna yfir Moskvu fyrir hátíðarhöld vikunnar.
Frá æfingu flugmanna yfir Moskvu fyrir hátíðarhöld vikunnar. AP/Alexander Zemlianichenko

Ráðamenn í Rússlandi segjast hafa þurft að loka flugvöllum í Moskvu í nokkrar klukkustundir vegna drónaárása Úkraínumanna. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir 105 dróna hafa verið skotna niður í nótt, víðsvegar yfir Rússlandi.

Nítján þessara dróna var flogið að Moskvu en engan mun hafa sakað í þessum árásum. Þetta er önnur nóttin í röð sem Úkraínumenn fljúga drónum að Moskvu, þar sem fram eiga að fara mikil hátíðarhöld í vikunni til að marka sigur gegn Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur lýst yfir einhliða vopnahlé á næstu dögum, vegna hátíðarhaldanna. Það hefur ekki verið samþykkt af Úkraínumönnum sem segja árásir Rússa á óbreytta borgara í Úkraínu vera linnulausar.

Rússar gerðu sömuleiðis drónaárásir í Úkraínu og er einn sagður hafa fallið í Odesa, þar sem drónar hæfðu íbúðarhúsnæði. Drónarnir eru einnig sagðir hafa valdið skemmdum á innviðum í borginni og fimm húsum, samkvæmt ríkisstjóra héraðsins.

Þá kviknuðu eldar í Karkív þar sem drónar hæfðu meðal annars markað, sem brann til grunna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×