Popovich er orðinn 76 ára gamall og hefur verið heilsulítill undanfarna mánuði. Hann fékk heilablóðfall í nóvember á síðasta ári og í febrúar staðfesti Spurs að hann myndi ekki snúa aftur á hliðarlínuna á þessari leiktíð.
Nú hefur verið staðfest að Popovich muni stíga til hliðar sem þjálfari liðsins en hann hefur sinnt því starfi í nærri þrjá áratugi og fimm sinnum leitt liðið til sigurs. Fyrir afrek sín var hann tekinn inn í Heiðurshöll körfuboltans í Bandaríkjunum.
„Þó ást mín og ástríða á leiknum sé sú sama hef ég ákveðið að það sé kominn tími til að stíga til hliðar sem þjálfari liðsins,“ sagði Popovich á sinn einstaka máta þegar ákvörðunin var tilkynnt. Hann verður þó áfram á mála hjá Spurs, nú sem forseti félagsins.
Þrátt fyrir slakan árangur á yfirstandandi tímabili er framtíðin björt hjá Spurs enda með einn efnilegasta leikmann NBA-deildarinnar í Victor Wembanyama.