Helena Rós Sturludóttir er ein þeirra sem beið eftir umræddu flugi í gær en fréttastofa sló á þráðinn til hennar til að spyrja hana út í seinkunina. Helena kvaðst hafa verið mætt upp á völl um hálf tvö leytið í gær því flugið sjálft átti að vera klukkan þrjú.
„Það leit í rauninni allt frekar eðlilega út. Okkur var komið fyrir í flugvélinni og tjáð að það yrði einhver seinkun en að það yrði flogið. Síðan voru alltaf að koma nýjar og nýjar tilkynningar því ástandið var náttúrulega mjög óljóst úti en á endanum var okkur tjáð að flugvellinum i Lissabon hefði verið lokað en við biðum ennþá úti í vél því þeir höfðu væntingar um ástandið myndi nú lagast og að við færum í loftið í gær en svo varð ekki. Ég kom aftur heim um hálf tíu í gærkvöldi eftir að hafa setið í flugvélinni í fjórar, fimm klukkustundir.“
Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, staðfesti við fréttastofu að flugið sé á dagskrá klukkan 17.00 síðdegis. Helena bindur vonir við að það standist því um langþráða ferð er að ræða. Þrátt fyrir að það sé óneitanlega dálítið fúlt að verða fyrir seinkun sem þessari er Helena kát og sér broslegar hliðar málsins enda mikill húmoristi.
„Það er náttúrulega smá húmor í þessu. Ég ætlaði að skella mér í vikufrí og það voru miklar væntingar til þessarar ferðar þannig að ég gat ekki annað en hlegið í gær því það sem gerðist hefur held ég aldrei gerst áður en að þetta gerist akkúrat þegar ég fer í frí er pínu súrrelískt.“
„Ég leyfði nú vinum og vandamönnum að fylgjast með. Ég hef náttúrulega verið með stórar yfirlýsingar með þetta frí sem ég er að fara í og ég setti inn myndband í gær af mér þegar ég kom aftur heim og sagðist hafa orðið fyrir smá vonbrigðum með Lissabon, það væri aðeins kaldara en ég átti von á en stóð bara út á svölum heima,“ segir Helena, glöð í bragði en ef allt gengur að óskum verður hún komin í mildara loftslag og suðræna strauma strax í kvöld.