Körfubolti

Lakers sprungu og eiga bara eina líf­línu

Sindri Sverrisson skrifar
Anthony Edwards og LeBron James í átökum í leiknum í gær. James er núna einu tapi frá því að fara í sumarfrí.
Anthony Edwards og LeBron James í átökum í leiknum í gær. James er núna einu tapi frá því að fara í sumarfrí. Getty/Robert Gauthier

Anthony Edwards og félagar í Minnesota Timberwolves eru langt komnir með að senda stjörnur LA Lakers í snemmbúið sumarfrí eftir æsispennandi leik í NBA-deildinni í körfubolta í gær.

Minnesota vann leikinn á heimavelli, 116-113, og er nú komið í 3-1 í einvíginu en vinna þarf fjóra leiki til að komast í aðra umferð.

Lakers voru tíu stigum yfir í fjórða leikhluta en keyrðu á sama fimm manna liðinu allan seinni hálfleikinn og misstu forskotið niður í lokin, eftir að hafa náð 14-0 kafla í byrjun þriðja leikhluta og unnið hann 36-23.

Sneru við dómi í blálokin

„Mér fannst þeir klára bensínið þegar við nálguðumst lok leiksins,“ sagði Edwards sem skoraði 16 af 43 stigum sínum í lokafjórðungnum.

LeBron James skoraði 27 stig, tók 12 fráköst og gaf átta stoðsendingar en var afar ósáttur við ákvörðun dómaranna í lokin um að snúa við fyrri dómi sínum og dæma villu á hann, þegar Lakers virtist vera að fá lokasókn til að tryggja sér sigur.

James vildi ekki meina að Lakers hefðu einfaldlega sprungið á limminu.

„Við fengum virkilega góð færi. Luka [Doncic] klikkaði á opnu sniðskoti til að koma okkur sjö stigum yfir. Ég klikkaði á opnu sniðskoti til að koma okkur fjórum yfir. Við fengum nokkur tækifæri. Ég held að það hafi ekkert snúist um þreytu. Við bara klikkuðum á opnum skotum. Við komum okkur í þau færi sem við vildum en náðum bara ekki að nýta þau,“ sagði James.

Fjögur einvígi héldu áfram í gær og í engu þeirra er staðan jöfn, eftir fjóra leiki. Meistarar Boston Celtics, New York Knicks og Indiana Pacers eru öll einum sigri frá því að komast í næstu umferð, líkt og Timberwolves.

Úrslitin í gær:

  • Pistons – Knicks, 93-94
  • (Knicks eru 3-1 yfir)
  • Timberwolves – Lakers, 116-113
  • (Timberwolves eru 3-1 yfir)
  • Magic – Celtics, 98-107
  • (Celtics eru 3-1 yfir)
  • Bucks – Pacers, 103-129
  • (Pacers eru 3-1 yfir)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×