Í þættinum Flugþjóðin á Stöð 2 er fjallað um þýðingarmikið hlutverk Melavallarins. Þar var fyrsta bækistöð Svifflugfélags Akureyrar, sem stofnað var árið 1937, tveimur mánuðum á undan Flugfélagi Akureyrar, forvera Icelandair.
Hér má sjá níu mínútna kafla úr þættinum:
Sléttur dalbotninn ofan ármóta Eyjafjarðarár og Djúpadalsár gerði melana við bæinn Melgerði að náttúrulegum lendingarstað. Breski herinn gerði þar herflugvöll á stríðsárunum sem bandaríski herinn tók svo við.
Í miðri heimsstyjöld, árið 1942, keypti Flugfélag Íslands Beechcraft landflugvél, fyrstu tveggja hreyfla flugvél Íslendinga, og tveim árum síðar tvær nýjar De Havilland Rapide landvélar, sem næstu árin héldu uppi flugi milli Reykjavíkur og Melgerðismela. Á stríðsárunum þurfti að mála þær rauðar til að aðgreina þær frá herflugvélum.

Með komu Gljáfaxa til Flugfélags Íslands árið 1946 og síðan fleiri Douglas Dakota-véla efldist innanlandsflug á landflugvélum. Þristarnir þóttu stórir á þeim tíma, tóku 28 farþega, og Melgerðismelar urðu helsti áfangastaður innanlandsflugsins frá Reykjavík.
Melgerðismelar voru hins vegar í 25 kílómetra fjarlægð frá Akureyri og malarvegurinn á milli seinfarinn um sveitina. Því var fljótlega farið að huga að gerð nýs flugvallar nær bænum. Honum var fundinn staður á leirunum við ósa Eyjafjarðarár. Fyllingarefni var fengið með sanddælingu úr ósnum og var flugvöllurinn tekinn í notkun í desember árið 1954.

Þátturinn um Akureyrarflugvöll og þátt Eyfirðinga í íslensku flugsögunni er sá tólfti í þáttaröðinni um Flugþjóðina, sem hóf göngu sína á Stöð 2 síðastliðið haust.
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð alla þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvar og hvenær sem er.
Hér er fyrsta kynningarstiklan fyrir Flugþjóðina: