„Útskýringin er einfaldlega sú að forseti ætlaði sér að merkja opinbera síðu páfa í færslu sinni á Instagram sem birtist einnig á Facebook. Í fljótheitum yfirsást henni að @-merkið skilaði sér ekki inn í færsluna sem olli því að heiti páfa birtist á ensku. Um leið og henni barst ábending um að svo væri leiðrétti hún færsluna,” segir Sif Gunnarsdóttir ritari forseta í svari við fyrirspurn fréttastofu.
Gríðarleg hneykslan braust út á samfélagsmiðlum þegar Halla skrifaði samúðarkveðju vegna fráfalls páfa, eða „Pope Francis“. Eins og fram kemur í svörum Sifjar breytti Halla umsvifalaust „Pope Francis“ í Frans páfa. En skaðinn var skeður og var forseta umsvifalsaust núið því um nasir að vera plebbalegur.
„Menntunarskortur,“ skrifaði sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason til að mynda, miskunnarlaus.
Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus hefur staðið í ströngu við að eyða út ummælum á síðu sinni eftir að hann gerði þetta mál að umfjöllunarefni á síðunni „Málspjall“.
„Mér urðu á ritstjórnarleg mistök hér í hópnum í gær. Ég skrifaði færslu um óboðlega enskunotkun í færslu forseta Íslands,“ skrifar Eiríkur. Hann segist standa við þá færslu, hún hafi verið eðlileg miðað við þær upplýsingar sem fyrir lágu.
„Hins vegar fékk ég seinna skýringu á málinu og ljóst að það var ekki ásetningur forseta að nota ensku þarna eins og ég skrifaði um í annarri færslu.“