Körfubolti

„Við Em erum miklu stærri en þær allar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paulina Hersler skoraði 32 stig fyrir bikarmeistara Njarðvíkur gegn Keflavík.
Paulina Hersler skoraði 32 stig fyrir bikarmeistara Njarðvíkur gegn Keflavík. vísir/ernir

Paulina Hersler var stigahæst í liði Njarðvíkur sem vann fimmtán stiga sigur á Keflavík, 90-85, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Bónus deildar kvenna í körfubolta í dag.

„Það er alltaf gott að byrja á sigri. Við vitum að þetta verður langt einvígi. Það þarf að vinna þrjá leiki. Við erum klárlega ánægð með fyrsta sigurinn en núna þurfum við að einbeita okkur að næsta leik,“ sagði Paulina í samtali við Vísi eftir leik.

En hver var lykilinn að sigri Njarðvíkur í dag?

„Við leystum pressuna þeirra mjög vel og nýttum okkur veikleika þeirra. Við erum stærri en þær svo við þurfum að fara inn í teig og senda boltann út þegar þær tvöfalda. Ég held að við höfum gert það ágætlega í dag. Við þurfum að halda því áfram og halda áfram að leysa pressuna og hraðaupphlaupin þeirra,“ sagði Paulina.

Hún skoraði 32 stig í leiknum og var næststigahæst á vellinum á eftir Jasmine Dickey hjá Keflavík. Paulina kvaðst sátt með sína frammistöðu þótt hún hafi verið hógværðin uppmáluð.

„Já, svo lengi sem við vinnum. En eins og ég sagði vildum við fara mikið inn í teig. Við erum með hæðina, við Em [Emilie Hessedal] erum miklu stærri en þær allar og þetta var hluti af leikáætluninni,“ sagði Paulina.

Hún hlakkar til leiks tvö í Keflavík á miðvikudaginn.

„Einvígið er langt og við vitum þær koma af krafti og ætla að stela sigri. Við þurfum að gefa enn meira í og halda boltanum betur. Við vorum með of marga tapaða bolta og mistök í fyrri hálfleik. Við þurfum að hugsa vel um líkamann og koma huganum á réttan stað,“ sagði Paulina að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×