Þetta staðfestir Birgir Olgeirsson, sérfræðingur í almannatengslum hjá Play, í samtali við fréttastofu.
Greint var frá því í morgun að hátt í níutíu íslenskir piltar, þar af sjötíu undir lögaldri, væru fastir ásamt fylgdarliði á flugvellinum í Barselóna.
Þeir áttu að fljúga seint í gærkvöldi með Play heim eftir að hafa verið í keppnisferð á Spáni. En þegar vélin hafði verið í loftinu í skamma stund kom bilun í ljós og þurfti að lenda aftur í Barselóna. Piltarnir og fylgdarliðið hafa dvalið á flugvellinum síðan.
Birgir segir að farþegar ættu á komandi mínútum að fá skilaboð um að búið sé að færa flugið þeirra.
„Þetta er gert í viðleitni við að koma þeim sem fyrst heim,“ segir Birgir.
„Það er aldrei skemmtileg uppákoma þegar svona gerist. En það er búið að vinna að þessu hörðum höndum. Og vonandi leysist þetta farsællega í kvöld.“